Kjúklingaleggir með sinnepssósu

Suma laugardaga er ég alveg í stuði til að vera með mat sem tekur langan tíma að elda og er flókinn. Mér finnst samt sunnudagarnir betri í það og annan hvern sunnudag býð ég mömmu og systkinum mínum og stundum ömmu eldgömlu í mat. Það er yndisleg og skemmtilegt hefð, finnst mér. Svo baka ég líka alltaf eitthvað um helgar, yfirleitt sunnudagsköku og svo eitthvað með kaffinu eða dögurðinum. Mikið hlýtur að vera gaman að eiga mig sem mömmu. Á laugardögum er ég yfirleitt eitthvað á fartinni og þá finnst mér gott hafa eitthvað fljótlegt. Í þetta skipti urðu kjúklingaleggir fyrir valinu, þeir eru ódýrir og mjög einfaldir í eldun.

Það er enginn að fara að finna upp hjólið, held ég, þegar kemur að því að elda kjúklingaleggi, svo þið hafið örugglega séð svipaða uppskrift og hér að neðan á mörgum stöðum. Ég fékk hugmyndina að því að nota soyasósu (eða Tamari) og smjör á Eldhússögum, sem er alveg frábært matarblogg. Þessi uppskrift dugir fyrir fjóra svanga (tvo fullorðna og tvö börn) og ekki ólíklegt að það verði afgangur af leggjunum. Meðlætið miðast við þrjá þar sem við erum þrjár í kotinu þessa helgi, en þið bætið bara við ef þið eruð fleiri. Það sem þið þurfið:

1 kg kjúklingaleggir

25 g smjör

3 msk tamarisósa

kjúklingakrydd

ólífuolía

Hellið ólífuolíu í botninn á eldföstu móti þannig að þeki botninn, þetta eru kannski 3-4 msk. Setjið kjúklingaleggina í mótið og kryddið vel. Það er gott að velta leggjunum á meðan þið kryddið svo að þeir séu vel þaktir kryddinu, við ætlum ekkert að hafa þetta bragðlaust! Bræðið smjörið og hellið yfir leggina og dreypið tamarisósunni þar yfir. Látið marínerast í 30 mín., það er ekki nauðsynlegt en alltaf betra. Leggirnir þurfa 30-40 mín. í 180° heitum ofni með blæstri. Ég setti meðlætið með í ofninn og hafði það jafn lengi og leggina. Meðlætið var líka einfalt, ekkert flókið á laugardögum:

4 gulrætur

1 laukur

ólífuolía

salt og pipar

rósmarín

Skerið gulræturnar í tvennt og helmingana aftur í tvennt, jafnvel þrennt ef gulræturnar eru þykkar. Skerið laukinn í báta og raðið þessu tvennu í eldfast móti. Hellið ólífuolíu yfir og kryddið með salti, pipar og rósmarín.

2015-10-31 17.05.08   2015-10-31 18.02.44

Ég gerði sinnepssósu með þótt það þurfi varla, það dugir alveg að hella soðinu af leggjunum í sósukönnu og skella með á borðið, en mig langaði að búa til eitthvað meira. 2015-10-31 17.06.48

3 msk mæjónes

2 msk franskt sinnep

2 msk hunang

Ég mæli með því að hafa sósuna í kæli á meðan leggirnir og grænmetið eldast. Þegar allt er tilbúið er bara að hrúga á disk og njóta. Einfalt og gott.

2015-10-31 18.40.29

Uppáhaldsréttur Hrundar – nachos með hakki

Ég skrifaði Hrundar, ekki Sprundar. Það er ákveðið afrek, ég kalla hana afar sjaldan Hrund. Það er mjög oft Sprund en líklega enn oftar Þóris, það er auðvitað frekar fáránlegt, þótt hún sé Þórisdóttir, en oft má finna mig úfna um hausinn með 100 hálfkláruð verk í gangi, opna uppþvottavél, skítugan þvott undir handleggnum, matinn í ofninum, einhvern heimalestur barns í gangi inni í eldhúsi og galandi Þóóóóóris, af því að að ég verð að segja henni eitthvað. Ég þarf svo mikið að segja henni á hverjum degi. Og hún mér. Og núna þegar hún bæði vinnur og er í skóla og ég vinn og treð inn eins miklum dansi og ég get þá tölum við þegar við getum stundum þannig að maturinn brennur eða börnin komast ekki að.

Aníhú. Þetta er nýtt uppáhalds. Sagði Hrund áðan. Og sagði svo ekki meir því að hún var að borða. Stelpurnar þögðu líka og hökkuðu í sig. Þetta fannst öllum gott. Þetta hefur verið yndisleg helgi, systur í vetrarfríi og við vorum með fjölskylduafmæli fyrir Röskvu sem verður 6 ára 30. október. Það var brjálað stuð. Svo var það bara bíó og sund í dag. Ég hafði það svo gott og slakaði svo mikið á að ég gleymdi að fara með Röskvu á skautaæfingu. Þetta er í annað skipti sem það gerist á sunnudegi. Ég sagði Hrund að það væri góðs viti, það þýddi að ég væri slök en ekki með áhyggjur af öllu. Þegar ég er svona slök man ég ekki neitt og bara skemmti mér. Við getum ekki farið að kvarta yfir því. Nema Röskva sem varð pínu tjúll yfir að missa af æfingu.

Ég var svo slök að ég ákvað að hafa skyndibitamat, heimagerðan. Þetta er lygi. Ég var fyrir löngu búin að ákveða að hafa þennan rétt. Ég sá uppskrift að gratíneruðu tacoi inni á Ljúfmeti og lekkerheit um daginn og hef beðið spennt eftir að prófa það síðan. Ég breytti auðvitað aðeins, gat ekki annað, en annars er þetta svipað og hér: http://ljufmeti.com/2012/07/17/gratinerad-taco/ Mín útgáfa, sem ég mæli eindregið með, er svona:

500 g nautahakk

1/2 paprika

1/2 hvítlaukur (þessi kínverski)

1/4 rauðlaukur (ég var með mjög stóran lauk)

1 dós gular baunir

taco-krydd í bréfi

1 dl vatn

Saxið papriku og rauðlauk og steikið með hakkinu á pönnu. Rífið hvítlauk út í . Bætið taco-kryddi og vatni við þegar hakkið hefur brúnast. Steikið þar til allur vökvi hefur gufað upp og blandið þá gulu baununum saman við.

Í eldfast mót fer:

1 askja rjómaostur

770 ml krukka af salsa

1 dós 5% sýrður rjómi

rifinn ostur

nachos

Áður en ég held áfram vil ég taka fram að á mínu heimili tölum við um salsa, ekki salsasósu. Þeir sem kunna spænsku vita að það þýðir sósasósa. Ég vil frekar sósu en sósusósu. Salsa þýðir sósa. Ok. Búið. Nei, vil líka segja að ég tala um salsa í hvorugkyni, veit ekki af hverju.

Smyrjið rjómaosti að eiginn vali í botninn á mótinu. Hellið salsanu yfir og því næst sýrða rjómanum. Blandið honum saman við salsað og hellið hakkinu þar ofan á. Drefið rifnum osti yfir og þekið með nachosi. Dreifið að lokum meiri osti yfir. Hitið í ofni í 20 mín. við 180 gráður eða þar til þið sjáið að salsað er farið að bubbla, þá er gúmmelaðið orðið heitt.

2015-10-25 19.36.42 2015-10-25 20.11.54

Með hafði ég baunamauk (úr dós, þetta var heimagerður skyndibitamatur), salat, guacamole, rauðlauk og chillí. Pabbi kenndi mér að gera heimsins besta gucamole. Málið er að hann gerir heimsins besta guacamole, mitt verður aldrei eins gott. En samt svakalega gott. Venjulega nota ég ekki rauðlauk heldur ferskan hvítlauk í það en það er nauðsynlegt að breyta reglulega til:

4 litlar þroskaðar lárperur

hálf dós kotasæla

1 lime

1 tsk. hvítlauksduft

1/4 rauðlaukur

salt eftir smekk

Skiptið lárperunni í tvo helminga og skafið kjötið innan úr með skeið. Kreistið lime yfir og stappið, ekki of mikið, þetta er ekki barnamatur. Blandið lauk, kryddi og kotasælu við og kælið áður en þið borðið, það er alveg nauðsynlegt.

Ooooog borða!

2015-10-25 20.15.49

Linsubaunasúpa og hversdagslengja

Ég er hætt í ólympísku lyftingunum í bili og læt zumbað duga, bæti við mig þar en er samt meira heima og finnst ég hafa allan tímann í heiminum. Þá baka ég, það er bara þannig. Í kvöldmat hafði ég linsubaunsúpu og ilmandi hversdagslengju á eftir.

Linsubaunasúpur eru snilld. Þær eru ódýrar og ótrúlega næringarríkar. Ég kaupi linsubaunir frá Himneskri hollustu (eða heitir þetta bara Himneskt?) og geri súpu úr heilum poka. Ég fæ mikið magn af súpu en ég frysti alltaf restina og ég gleymi henni aldrei þar, mjög þægilegt að geta gripið í tilbúna súpu. Kvöldið áður en ég ætla að hafa súpuan tæmi ég pokann í skál, helli vatni í skálina þannig að fljóti yfir baunirnar og set tvær teskeiðar af matarsóda út í. Ekki veit ég af hverju maður á að gera það, það bara stendur aftan á pakkanum. Að leggja baunirnar í bleyti styttir suðutímann gífurlega. Þegar ég kom heim skolaði ég baunirnar vel og skellti í pott og á eftir fór:

1 lítri vatn

2 msk.  lífrænn grænmetiskraftur

1 tsk. karrý

1 tsk. cumin

1 tsk. hvítlauksduft

1/4 tsk. paprika (kryddið, ekki fersk)

1/4 tsk. reykt paprika

slatti af fersku kóríander

250 g beikon

Fyrst bætti ég við vatninu og kryddinu og lét sjóða í um 10 mín. Síðan klippti ég beikonið út í og sauð í aðrar 10 mín. Eins og svo oft eru þessi krydd ekkert heilög, ég gerði þessa súpu örugglega allt öðruvísi síðast. Ég nota líka oft kókosmjólk í hana og stundum hef ég meira vatn, súpan var mjög þykk núna. Það er eiginlega ekki hægt að klúðra þessari súpu svo að leikið ykkur aðeins með kryddið. Eins og áður hefur komið fram keypti ég búnt af fersku kórander í síðustu viku og hef síðan notað það í næstum hvern einasta rétt. Mér finnst það bara svo gott. Líkt og sést á myndinni er það orðið svolítið lúið en bragðbgott engu að síður. Ég var svo að sjálfsögðu með ferskt chilli í minni súpu. Þetta lítur út eins og drulla í skál en ég mana ykkur til að prófa þessa súpu, hún er lostæti.

2015-10-20 18.44.26

Hversdagslengjan er í miklu uppáhaldi hjá öllum. Hana lærði ég að gera í heimilisfræði í barnaskóla og hef bakað hana þúsund sinnum síðan. Ég set stundum rúsínur í deigið og stundum súkkulaði, stundum hvorugt og stundum hvort tveggja. Stundum bæti ég við eplum og oft strái ég kanilsykri ofan á. Það er heldur ekki hægt að klúðra þessari uppskrift. Látið mig samt vita ef ykkur tekst það, haha. Ég hef ekki enn gefið mér tíma í að smakka þá sem ég bakaði áðan en stelpurnar borðuðu þrjár sneiðar og það segir allt sem segja þarf. Hrund sagði að hún mætti vera sætari en þá er hún líklega nákvæmlega eins og ég vil hafa hana svona á þriðjudegi, bæði hversdagslengjan og Hrund.

3 og 1/2 dl hveiti (eða spelt, ég nota það alltaf)

1 1/2 tsk. lyftiduft (ég nota alltaf gerlaust lyftiduft eða vínsteinslyftiduft)

3/4 dl sykur

1/2 tsk. kardimommudropar

100 g brætt smjör

1/2 dl rúsínur (og jafnvel súkkulaði)

1 egg

3/4 dl mjólk.

Blandið öllu saman í skál með sleif. Best að setja rúsínur og súkkulaði út í síðast. Deigð var svo heitt af því að ég var nýbúin að hella smjöri yfir allt að þegar ég bætti súkkulaðinu út í bráðnaði hluti af því og kakan varð súkkulaðibrún. Maður er nú ekkert að kvarta yfir því. Ég notaði 70% súkkulaði til að halda sykrinum í lágmarki. Mér finnst best að setja deigið í sílikonform, ég á formkökuform (er þetta orð?) sem ég nota mikið og ég mæli svo mikið með sílikonformum t.d úr Kokku, ég á þau í nokkrum stærðum og það er bara of þægilegt. Bakið kökuna við 200 gráður í 20 mín. og fáið ykkur eina volga sneið með mjólk. Ef það er til mjólk hjá ykkur. Það er engin mjólk til hér, bara kaka og vatn í boði.

2015-10-20 18.14.28  2015-10-20 20.18.52

Bananapönnsur

Ég hræri oft í bananapönnsur handa stelpunum. Þær eru góðar í dögurðinn og ég nota þær líka stundum í kvöldmat. Þær eru sykurlausar og ég nota spelt þannig að þær sleppa alveg sem kvöldmatur stöku sinnum með til dæmis góðu bústi.

Í gær var ég í tvöföldum zumbatíma og kom í seinna fallinu heim og þá er gott að hafa eitthvað einfalt þegar ég skríð löðursveitt inn. Ég gerði svona pönnsur og sauð frosin ber með með smá hungangi til að hafa út á. Við áttum enn þá smá eftir af bleika rjómanum síðan á sunnudaginn sem gerði matinn ekki bara bragðgóðan heldur fallegan. Svo skellti ég í búst úr hreinni súrmjólk, lárperu, spínati, banana, peru og berjum. Þetta er alveg stútfullt af næringu og seðjandi.

Uppskriftina að pönnsunum fann ég einhvern tíma á netinu, ekki man ég hvar, en takk þú sem átt heiðurinn að uppskriftinni.

5 dl spelt

4 tsk. vínsteinslyftiduft

1/2 tsk. salt

2 tsk. kanill

3-4 dl mjólk

2 egg

2 msk. olía

3 stappaðir bananar.

Blandið öllu saman og steikið á pönnu. Ég steiki allt á Jamie Oliver pönnunni minni, nema íslenskar pönnukökur. Þetta er djúp panna og húðuð með efni sem ekkert loðir við, ekki tefloni heldur því sem kom seinna og á ekki að vera eins eitrað. Elska þessa pönnu. Ég reyndi að taka mynd af henni en hún kemur illa út, sem pannan á ekki skilið, svo þið ímyndið ykkur hana bara.

Ég gerði svo eina pönnuköku bara fyrir mig án hveitis. Stappaði einn banana og hrærði saman við eitt egg og steikti í smá kókosolíu. Algjört sælgæti.

2015-10-19 19.49.52

Núðlusúpa handa Sprundinni

Ég var búin að ákveða að gera núðlusúpu eins og Sprundinni minni finnst svo góð í kvöld. Samt vissi ég að hún væri á kvöldvakt. Ég bara klára ekki alltaf allar hugsanir. Hef líklega hugsað með sjálfir mér þegar ég gerði innkaupalistann og matarplanið í vikunni að ég ætlaði að hafa núðlusúpu og svo kíkt á vaktaplanið og séð að hún væri að vinna og svo          Já, einhver eyða. Ég hef farið að hugsa um eitthvað annað og ekki klárað hugsunina sem hefði líklega falið í sér að ég hefði komist að þeirri niðurstöðu að betra væri að hafa súpuna einhvern annan dag. Stelpunum finnst hún ekkert spes. Og svo ákvað Röskva að borða hjá vinkonu sinni. Og Rakel fór til vinkonu sinnar. Þannig ég var eina að vesenast með eitthvað lime og dót.

En Hrund lofaði að fá sér þegar hún kæmi heim. Mér fannst súpan klikkað góð. Og Rakel líka! Bragðskynið er alltaf að breytast, eins og ég messa alltaf yfir henni þegar hún er að gubba yfir einhverju sem henni finnst vont, og aldrei að vita hvenær manni fer að finnast eitthvað gott sem manni fannst áður horbjóður. Rakel borðar til dæmis núna beikon, það er auðvitað nauðsynlegt að hún borði beikon eins og við hinar, túnfiskssalat og núðlusúpu.

Ætli einhver leggi það á sig að lesa þetta blaður til að komast að uppskriftunum? Eða skrunið þið bara niður? Ég skil það alveg.

Ég hef skoðað margar uppskriftir að núðlusúpum og það er ein á Ljúfmeti og lekkerheit sem kemur sterkt inn. Ég geri oft mjög svipaða þótt ég fylgi ekkert uppskriftinni, sem má finna hér : http://ljufmeti.com/2013/10/30/nudlusupa-i-bodi-jakobs/

Mín mjög svo keimlíka en samt ekki alveg eins útgáfa í kvöld var svona:

500 g kjúklingafilé

2 msk. sesamolía

2 msk. tamarisósa

1/2 hvítlaukur (þessi sem er einn heill stór geiri)

sesamfræ

kjúklingakrydd eftir smekk

Byrjum á kjúklingnum. Ég skar hann niður og hafði hann í marineringu á kaldri pönnunni í 30 mín. Velti honum upp úr sesamolíu og tamarisósu og reif hvítlaukinn yfir, hrærði saman við hann sesamfræjum, setti lokið á pönnuna og hitti pabba á Skype á meðan ég beið. Eftir spjallið steikti ég kjúklinginn þar til hann var steiktur í gegn og ekki sekúndu lengur, þoli ekki þegar ég steiki kjúkling of mikið. Mér finnst gott að krydda með smá kjúklingakryddi á meðan ég steiki en það er ekkert nauðsynlegt.

2015-10-18 17.40.02

Þetta er augljóslega fáránlega illa tekin mynd en ég vildi sýna ykkur olíuna og sósuna sem ég nota, hvort tveggja frá himneskri hollustu. Þessi sesamolía er sú allra besta, að steikja upp úr henni er unaður, unaður segi ég, þvílíkur dásemdarilmur. Tamarisósan er mjög braggóð, ekki eins  rosalega sölt og soyasósan en annars ekki svo ólík henni á bragðið.

Þá er það súpan:

5 cm af púrrulauk

1/2 hvítlaukur

1-2 msk. sesamolía

1 msk. curry paste (fæst til dæmis í Bónus)

1 stór dós kókosmjólk

4 dl vatn

2 msk. hnetusmjör

2 msk. lífrænn grænmetiskraftur (eða einn teningur)

1 msk. ostrusósa

1 msk. fiskisós

1 msk stevia (eða venjulegur sykur)

Saxið púrruna og rífið hvítlaukinn á rifjárni út í olíu og steikið við vægan hita.  Ef þið eigið ferskt engfer mundi ég rífa lítinn bút út í með lauknum. Ég gleymdi hins vegar að kaupa engifer um daginn og þess vegna er það ekki í uppskriftinni. Bætið karrýmaukinu út í og  steikið þar til eldhúsið er farið að ilma af sterku karrý. Hellið kókosmjólkinni og vatninu út í og hrærið. Bætið við krafti, hnetusmjöri, sósum og sykri og hleypið suðunni upp. Og tilbúið! Ég átti bara litla dós af kókosmjólk og hafði því meira vatn en súpan er betri með meiri kókosmjólk, finnst mér. En hún var samt æðislega góð. Ég sauð svo núðlur (veljið ykkur tegund sem ykkur finnst góð, þetta voru hveitinúðlur en það er líka hægt að kaupa eggja- eða hrísgrjónanúðlur) handa Rakel og setti fullt af þeim í skál, fullt af kjúklingi og smá súpu yfir handa henni. Ég fékk mér fulla skál af súpu með slatta af kjúklingi og sleppti núðlunum. Út í mína súpu setti ég spírur, kasjúhnetur, ferskt chillí og kóríander og lime. Mér finnst alveg lykilatriði að bæði kreista mikið lime yfir og setja sneið eða bát af því út í súpuna.

2015-10-18 19.21.46

Ég ætlaði að hafa alveg svaðalega góða hveitilausa franska súkkulaðiköku með berjasósu og vanillurjómakremi í eftirrétt en svo nennti ég ekki að baka, ótrúlegt en satt. Ég bakaði vöfflur með tveimur 6 ára fyrr um daginn og lét það bara duga. Annars mæli ég eindregið með því að nota matarlit í bakstur. Það er svo fjári skemmtilegt. Besti matarlitur sem ég hef prófað er gelmatarlitur, sem fæst til dæmis í Allt í köku. Ég notaði bláan í vöfflurnar og bleikan í rjómann. Svo gaman að borða þetta. Þarf svo lítið til að gleðja mig. Fékk líka í fyrsta skipti vöfflu með Nutella á Slippbarnum í sumar og það var ákveðin opinberun.

Blá vaffla með Nutella og bleikum rjóma á sunnudegi. Svalur og bjartur haustdagur með laufblöðum um allt hús og barnhlátri í hverjum krók og kima. Það er hamingja.

2015-10-18 12.16.18 2015-10-18 12.06.29 2015-10-18 12.18.20

Túnfiskssalat

Það eiga örugglega allir sína uppskrift að túnfiskssalati. Nema ég sem þarf alltaf að breyta til. Ég geri reyndar mun oftar eggjasalat því að stelpunum mínum finnst það betra og mér finnst það mjög fínn prótíngjafi handa þeim, t.d. með máltíð eins og grjónagraut. Eða bara af því að það er gott. Mundi öruggulega gefa þeim soðin egg ef þær fúlsuðu ekki við þeim. Ég borða eiginlega alltaf linsoðið egg og lárperu í morgunmat og það er heimsins besti morgunmatur. Fullkomin samsetning og ég er vel södd fram að hádegi. Þótt ég borði bara eitt egg lifi ég þetta af. Stundum hef ég ekki tíma til að borða linsoðna eggið með skeið ef ég þarf að drífa mig af stað með Röskvu í skólann. Þá kæli ég eggið svo ég skaðbrenni mig ekki og set það allt upp í mig í einu. Ok, það gerðist einu sinni. Ég er ekki að hugsa um að gera það aftur. Ég borða þessi litlu brúnu egg frá hamingjusömu hænunum, sem betur fer, ég held að eitt stórt hvítt egg í heilu lagi hefði staðið í mér.

En ok! Túnfisksalat. Í þetta skiptið fór í salatið:

3 egg (ekki harðsoðin, aðeins minna soðin, það er best)

1 dós af túnfisk í vatni

2 msk. mæjones

2 msk. 5% sýrður rjómi

1/3 hluti af lauk

1 msk. tómatsósa

1 tsk. dijonsinnep

1 tsk. steikarkrydd

1 tsk. marjoram

1/4 tsk. karrý

salt eftir smekk

Blandið, smyrjið á eitthvað, njótið. Ég setti mitt á hveitilaust hrökkbrauð. Ofan á fór að sjálfsögðu jalapeno (það er ekki til rétt n á lyklaborðinu, þetta er ekki skrifað svona á spænsku) sem fæst í ediklegi í krukku. Ekki eins sterkur og ferskur en alveg dásamleg viðbót við allt. Ég keypti búnt af fersku kóríander um daginn svo að núna nota ég það í hverja máltíð og það fór líka ofan á. Namm. Að lokum smá salt og pipar. Drakk svo ískalt búst úr frosnum berjum og lárperu með. Núna er það kaffibolli.

Kjötbollur og gin

Ég gerði kjötbollur í kvöldmat. Það er fáránlega þægilegur og auðveldur matur. Tengdamóðir mín kær og húsband kaupa hálfan skrokk eða eitthvað álíka beint frá býli á hverju ári og ég fæ dásamlega gott hakk á færibandi, það er búbót í lagi. Núna er hakkið hins vegar búið og á meðan ég bíð og vonast eftir meira kaupi ég bara hakk frá Íslandsnauti út í búð.

Það er svo auðvelt að leika sér með kjötbollurnar og þær eru aldrei eins hjá mér. Í þessar fór:

500 g nautahakk2015-10-15 17.30.43

1 egg

hálfur pepperoniostur

dálítið af rifnum parmesan

1 tsk. salt

1 tsk marjoram

1 tsk. steinselja

1 tsk. kjúklingakrydd

1 tsk. steikarkrydd

hálfur hvítlauksgeiri (líklega tveir venjulegir, samanber umræðu um hvítlauk á blogginu í gær)

Þessi uppskrift er engan veginn heilög. Ég er með þvílíkt ostablæti þessa dagana. Ég á núorðið alltaf svona kringlótt oststykki sem fást í öllum bragðtegundum til að nota í hveitilausa hrökkbrauðið mitt. Það fer hálfur ostur í eina uppskrift af því og þá er hálfur eftir sem má nýta í ýmislegt. Ég mæli með pepperoniostinum, var að smakka hann í fyrsta skipti um daginn og gæti alveg tekið stykkið og fengið mér bita. En ég geri það ekki. Þið getið líka notað fetaost. Eða bara sleppt ostinum.

Ég notaði líka bara þurrkað marjoram og steinselju af því að ég átti það til og þurrkaða basilikan var búin. Ég mundi nota allt þurrkað krydd nema rósmarín og timían í kjötbollur.

Kryddinu má líka breyta. Mér finnst allar tegundir af kjúklingakryddi góðar í ýmsa rétti, það er yfirleitt hvítlaukur og paprika og pipar og eitthvað þannig í því og það er mjög gott í kjötbollur. Steikarkrydd fæst líka í mörgum útgáfum og ég nota það á allt kjöt. Notið bara eitthvað svipað sem þið eigið til. Ég mældi alla vega kryddið með SKEIÐUM fyrir ykkur. Það hef ég örugglega aldrei gert í lífinu áður.

Þið hnoðið svo allt saman í höndunum og mótið bollur, ég hef mínar frekar stórar. Ég setti slatta af smjöri á pönnuna því að ég ætlaði að nota restina af því ásamt soðinu í sósu á eftir. Ég setti olíu með til að smjörið brynni ekki og steikti  bollurnar stutt á snörpum hita á, sneri þeim einu sinni. Svo setti ég þær í eldfast mót og inn í  170 gráðu heitan ofn þar sem þær kláruðust að eldast á 10 mín., þær voru aðeins rauðar að innan en stökkar að utan þegar ég setti þær inn í.

2015-10-15 17.38.48  2015-10-15 17.55.56

Sósuna gerði ég á sömu pönnunni og ég steikti bollurnar á og notaði allt soðið sem varð eftir á henni. Svo var líka í sósunni:

3 dl matarrjómi (sirka, ég gleymdi að nota desilítramál fyrir ykkur)

2-3 tsk. lífrænn nautakraftur

1 tsk. salt

1 tsk. rifsberjahlaup

Mér finnst nautakjötskraftur í teningum virkilega vondur. Ég notaði þannig síðast þegar ég gerði kjötbollusósu og fannst mjög vont aukabragð af henni, en það er bara ég. Þessi lífræni er mjög mildur og góður. Ég þykkti sósuna ekkert, fannst það ekkert þurfa.

Og vá hvað þetta var gott! Þetta var með bestu bollum sem ég hef gert. Ég reyndari borðaði ekkert fyrr en löngu eftir að ég kláraði að elda, gaf bara stelpunum og fór svo á æfingu með unga yngri í eftirdragi. Nú er konan mín bara alltaf í vinnunni og maður þarf að sjá um hlutina sjálfur hérna! Fer á æfingu og það er bara allt eins og ég skildi það eftir þegar ég kem heim. Enginn lúxus lengur.
2015-10-15 20.35.15

Ég veit að þetta er pínu sjúkt með chillípiparinn með öllu. En ég ólst upp við það hjá pabba að chilli væri bara eins og hver önnur rúsína. Eða kálblað. Hann var með heilu laukana með öllu og beit í þetta eins og ekkert væri. Ég gerði bara það sama. Tók smá tíma að venjast brunanum. En síðan hefur mér fundist þetta ómissandi. Það tók svo steininn úr þegar ég var ólétt, ég bara missti tökin. Borðaði piparinn úr krukku og skolaði niður með kaffi. Var með hann on the side með grjónagrautnum. Hrund spurði mig varlega á einum tímapunkti hvort ég væri viss um að þetta hefði engin áhrif á barnið. Svona eftir á að hyggja, núna þegar unginn er fæddur,  þá er einhver eldur innra með henni, einver innri pipar, það er alveg á hreinu.

Í eftirrétt fékk ég mér svo gin. Vinkona mín spurði hvort hún þyrfti að hafa áhyggjur af þessari gindrykkju sem samkvæmt samfélagsmiðlum lítur út fyrir að vera mikil. Hún er samt ekki mikil. Og ég sagði henni að á meðan athyglisbresturinn væri í góðum gír þyrfti hún ekki að hafa áhyggjur. Í gær var ég til dæmis ekki að fara á æfingu, sem gerist ekki svo oft, og blandaði mér einn gin og tonic á meðan ég eldaði. Um þremur tímum seinna geng ég inn í eldhús og þar er drykkurinn. Ég hafði fengið mér eins og tvo sopa og svo gleymt honum. Ég setti bara glasið inn í ísskáp og þegar ég var að tala við vinkonu mína var ég að dreypa á dagsgömlum drykk. Hann var ekkert mjög góður.

En fáið ykkur kjötbollur. Og gin er líka gott.

Tómatsúpa

Blogg tvo daga í röð! Ég get svo svarið það …

Svo að það sé á hreinu mun ég ekki setja inn eigin uppskriftir í hvert skipti sem ég blogga, bara deila matamenningunni heima hjá mér og auðvitað gleðinni og ástríðunni með ykkur!

Við skulum halda áfram í súpunum. Þær eru það besta sem ég veit og ég get borðað súpur alla daga án þess að fá leið á þeim. Yfirleitt elda ég ekki súpur eftir uppskrift en ég skoða mjög oft uppskriftir til að fá hugmyndir, að hvers kyns réttum. Uppáhaldsbloggið mitt (fyrir utan eigið, augljóslega) er Ljúfmeti og lekkertheit. Það er eitthvað við það. Þar fann ég uppskrift að tómatsúpu sem ég fæ ekki nóg af. Öllum finnst hún góð heima hjá mér og hún er virkilega einföld og fljótleg, sem er alltaf kostur. Ég verð að deila gleðinni með ykkur: http://ljufmeti.com/2015/02/24/mogulega-besta-tomatsupa-i-heimi/

Ég breytti henni pínulítið, hafði heilan lauk og aðeins meiri hvítlauk. Bæði er það gott og þannig fékk ég tækifæri til að sýna ykkur aðra eldhúsgræju sem ég dýrka en gleymi mjöööög oft að nota, samanber fyrri orð um áráttu fyrir því að nota bara skurðarbretti og hníf. Þetta er svaka flott tupperware tryllitæki sem saxar allt mögulegt fyrir þig. Ég tók til dæmis laukinn og skar í fjóra báta og henti ofan í, togaði svo í spotta, aftur og aftur, rétt eins og ég væri að koma mótor í gang, og hvað fékk ég? Svo fínt saxaðan lauk að ég hefði aldrei náð að saxað neitt þessu líkt.

2015-10-14 18.31.09   2015-10-14 18.32.05

Mér finnst skipta öllu máli að nostra við lauksteikinguna, ekki grín, svo ég setti smjörklípu í pott og slettu af ólivuolíu með svo að ég gæti látið laukinn malla væna stund án þess að smjörið brynni við, olían kemur nefnilega í veg fyrir það. Annars fór ég að mestu eftir uppskriftinni, ja eða eftir minni. Útkoman var alla vega góð. Ég setti speltpastaskrúfur út í súpuna hennar Röskvu, við vorum bara tvær í kvöldmat, en út í mína fór lárpera, parmesan, ferskt kóríander og svo sterkt ferskt chilli í að ég held að það hafi komið gat á raddböndin, þetta er ekki gott nema það brenni.

2015-10-14 18.56.14

Við Röskvan gerðum svo vel við okkur og fengum okkur svívirðilega dýr ber í eftirrétt, það liggur við að maður borði þessi skemmdu sem læðast með af því að maður tímir ekki að henda neinu. Reyndar fékk Röskva sér tvöfaldan eftirrétt. Í fyrri eftirrétt vildi Röskvan heitast af öllu pastaskrúfur með smjöri, það er það besta sem hún veit. En svo gúffuðum við í okkur bláberjum og jarðarberjum með matreiðslurjóma (mér finnst betra að nota hann en venjulegan rjóma, það er eins og drekka stein, ef það væri hægt) og steviu. Sá sykurstaðgengill hækkar ekki blóðsykurinn eins og hvítur sykur og er kaloríusnauður og ég nota hann oft í staðinn fyrir þann hvíta. Mæli með honum.

2015-10-14 18.40.12

Ef þið ákveðið að prófa þessa súpu segi ég bara verði ykkur að góðu. Núna er ég farin að hekla, húsmóðirin sem ég er.

Naglasúpa

Ég bjóst við að þurfa að vera í vinnunni til kl. 19 í dag en þar sem fundi var slitið snemma á Alþingi komst ég mun fyrr heim. Ég hringdi því um Hrund um leið og ég fékk þessar fréttir og skipaði henni að kaupa engan fisk, sem ég hafði beðið hana um að gera. Þegar ég er ekki heima að hræra í pottum er fiskbúðin oft redding, Hrund getur alveg skellt tilbúnum fiskrétti í ofn þótt hún viti ekkert leiðinlegra en að fara í fiskbúð, sem ég skil ekki.

Aníhú. Ég gríp hvert tækifæri til að elda en þar sem ég geri stórinnkaupin alltaf á miðvikudögum og næstum vika liðin síðan ég gerði þau síðast oooog hafði gert ráð fyrir fiski í kvöldmat vissi ég að það var lítið til. Það má samt alltaf gera súpu! Þegar ég kom heim og starði í tóman ísskápinn sá ég þó að þetta yrði ákveðin ögrun. En naglasúpa skyldi það verða. Ég fann lauk og hvítlauk og púrrulauk og hálfa papriku, ég á alltaf kókosolíu og lífrænan grænmetiskraft (þessir í teningunum eru frekar mikið msg- og gerdrullumall svo ég nota þá sjaldan), ég var svo lánsöm að eiga kókosmjólk og krukku af kjúklingabaunum og hnetusmjör gerir bara allt betra, það er bara þannig.

2015-10-13 18.23.44

Í súpuna fór:

1 laukur

1 hvítlaukur ( ég nota alltaf þá sem eru bara einn stór geiri, finnst þeir betri en hinir)

u.þ.b. 5 cm langur biti af púrrulauk

1/2 paprika

1 lítil dós kókosmjólk

6 dl vatn

1 krukka kjúklingabaunir (má líka vera úr dós, bara að þær séu soðnar)

1 msk. kókosolía

1 msk. cumin

1 msk. karrý

1msk. þurrkað engifer (endilega nota ferskt ef þið eigið til)

1 msk. grænmetiskraftur

1 msk. hnetusmjör

1 tsk. þurrkað kóríander

1 tsk. fiskisósa

1 tsk. ostrusósa

salt eftir smekk

Saxið lauk og púrrulauk smátt og steikið á lágum hita í kókosolíunni. Laukurinn verður sætari eftir því sem hann fær að malla lengur. Rífið hvítlaukinn út í og passið að hann brenni ekki, hann verður mjög rammur ef hann gerið það svo passið hitann. Bætið paprikunni og kryddunum við og njótið ilmsins.

2015-10-13 18.35.32

Bætið kókosmjólk, vatni, fiskisósu, ostrusósu, hnetusmjöri og kjúklingabaunum út í og látið sjóða við vægan hita í nokkrar mínútur. Saltið eftir smekk. Það er ekki nauðsynlegt að nota fiskisósu og ostrusósu, súpan var alveg bragðgóð áður en ég bætti þeim út í en ég þær gefa gott bragð. Og borðið! Súpan er einföld og ódýr og holl og baunirnar gera hana prótinríka og seðjandi. Með hafði ég hveitilaust hrökkrauð með smurosti og lárperu með salti, pipar og sítrónu og sneiðar af pepperoniosti fóru þar ofan á. Hrikalega gott.

2015-10-13 18.57.53

2015-10-13 18.57.38

Ég reyni að baka þetta hrökkbrauð einu sinni í viku til að eiga. Við Hrund elskum það. Ég hef skorið að mestu niður brauð, pasta, kartöflur og hrísgrjón þannig að uppskriftirnar mínar og almennt át er litað af því. Ég byrjaði á þessu í ágúst og líður svo vel af því. Einföld kolvetni á borð við þessi kveikja matarfíkn í mér, ég borða of mikið eða verð uppþembd og hugsa minna um hvað ég læt ofan í mig. Ég geri þetta ekki til þess að grennast og ég er ekki á lágkolvetnafæði, ég borða alveg nammi og kökur þegar mig langar í, þetta er aðeins skref í átt að betri líðan.

Hrökkbrauðið er algjör snilld og ég leik mér með uppskriftina. Reyni að passa að nota sama magn af fræjum og gefið er upp en nota bara þau sem ég á til og prófa allskonar krydd til að fá nýtt bragð í hvert skipti. Ég nota líka ólíkar tegundir af osti og á bara stundum husk. Tékkið á þessu: http://eldhussogur.com/tag/hrokkbraud-uppskrift/

Svo langar mig að sýna ykkur eina af uppáhaldseldhúsgræjunum mínum. Þetta er stálsápan mín úr Kokku. Ég nudda á mér hendurnar með henni undir rennandi vatni og öll lauklykt hverfur af fingrunum. Gargandi snilld!

2015-10-13 18.32.34

Og þá er fyrsta blogginu lokið. Fyrir tæknibastarð eins og mig tók þetta á. Sem betur fer hélt Hrund í höndina á mér og ýtti á takka fyrir mig. Ég mundi helst nota bara blað og penna og sleppa tölvunni ef ég kæmist upp með það. Ég gleymi mér líka oft og nota bara hníf og skurðarbretti þótt ég eigi fullt af flottum græjum til að einfalda lífið fyrir mig. Soldið gamaldags.

Það má reyna

Vegna fjölda áskorana hef ég stofnað matarblogg, La cocina, eða eldhúsið. Ekki veit ég hvað ég ætla að setja þar inn, mér finnst ég ekki svona klár eins og sumum, og ekki veit ég hvort ég muni nenna að nota gömlu borðtölvuna mína í þetta, og það er ekki mikið annað í boði. En hérna er þetta. La cocina.