Naglasúpa

Ég bjóst við að þurfa að vera í vinnunni til kl. 19 í dag en þar sem fundi var slitið snemma á Alþingi komst ég mun fyrr heim. Ég hringdi því um Hrund um leið og ég fékk þessar fréttir og skipaði henni að kaupa engan fisk, sem ég hafði beðið hana um að gera. Þegar ég er ekki heima að hræra í pottum er fiskbúðin oft redding, Hrund getur alveg skellt tilbúnum fiskrétti í ofn þótt hún viti ekkert leiðinlegra en að fara í fiskbúð, sem ég skil ekki.

Aníhú. Ég gríp hvert tækifæri til að elda en þar sem ég geri stórinnkaupin alltaf á miðvikudögum og næstum vika liðin síðan ég gerði þau síðast oooog hafði gert ráð fyrir fiski í kvöldmat vissi ég að það var lítið til. Það má samt alltaf gera súpu! Þegar ég kom heim og starði í tóman ísskápinn sá ég þó að þetta yrði ákveðin ögrun. En naglasúpa skyldi það verða. Ég fann lauk og hvítlauk og púrrulauk og hálfa papriku, ég á alltaf kókosolíu og lífrænan grænmetiskraft (þessir í teningunum eru frekar mikið msg- og gerdrullumall svo ég nota þá sjaldan), ég var svo lánsöm að eiga kókosmjólk og krukku af kjúklingabaunum og hnetusmjör gerir bara allt betra, það er bara þannig.

2015-10-13 18.23.44

Í súpuna fór:

1 laukur

1 hvítlaukur ( ég nota alltaf þá sem eru bara einn stór geiri, finnst þeir betri en hinir)

u.þ.b. 5 cm langur biti af púrrulauk

1/2 paprika

1 lítil dós kókosmjólk

6 dl vatn

1 krukka kjúklingabaunir (má líka vera úr dós, bara að þær séu soðnar)

1 msk. kókosolía

1 msk. cumin

1 msk. karrý

1msk. þurrkað engifer (endilega nota ferskt ef þið eigið til)

1 msk. grænmetiskraftur

1 msk. hnetusmjör

1 tsk. þurrkað kóríander

1 tsk. fiskisósa

1 tsk. ostrusósa

salt eftir smekk

Saxið lauk og púrrulauk smátt og steikið á lágum hita í kókosolíunni. Laukurinn verður sætari eftir því sem hann fær að malla lengur. Rífið hvítlaukinn út í og passið að hann brenni ekki, hann verður mjög rammur ef hann gerið það svo passið hitann. Bætið paprikunni og kryddunum við og njótið ilmsins.

2015-10-13 18.35.32

Bætið kókosmjólk, vatni, fiskisósu, ostrusósu, hnetusmjöri og kjúklingabaunum út í og látið sjóða við vægan hita í nokkrar mínútur. Saltið eftir smekk. Það er ekki nauðsynlegt að nota fiskisósu og ostrusósu, súpan var alveg bragðgóð áður en ég bætti þeim út í en ég þær gefa gott bragð. Og borðið! Súpan er einföld og ódýr og holl og baunirnar gera hana prótinríka og seðjandi. Með hafði ég hveitilaust hrökkrauð með smurosti og lárperu með salti, pipar og sítrónu og sneiðar af pepperoniosti fóru þar ofan á. Hrikalega gott.

2015-10-13 18.57.53

2015-10-13 18.57.38

Ég reyni að baka þetta hrökkbrauð einu sinni í viku til að eiga. Við Hrund elskum það. Ég hef skorið að mestu niður brauð, pasta, kartöflur og hrísgrjón þannig að uppskriftirnar mínar og almennt át er litað af því. Ég byrjaði á þessu í ágúst og líður svo vel af því. Einföld kolvetni á borð við þessi kveikja matarfíkn í mér, ég borða of mikið eða verð uppþembd og hugsa minna um hvað ég læt ofan í mig. Ég geri þetta ekki til þess að grennast og ég er ekki á lágkolvetnafæði, ég borða alveg nammi og kökur þegar mig langar í, þetta er aðeins skref í átt að betri líðan.

Hrökkbrauðið er algjör snilld og ég leik mér með uppskriftina. Reyni að passa að nota sama magn af fræjum og gefið er upp en nota bara þau sem ég á til og prófa allskonar krydd til að fá nýtt bragð í hvert skipti. Ég nota líka ólíkar tegundir af osti og á bara stundum husk. Tékkið á þessu: http://eldhussogur.com/tag/hrokkbraud-uppskrift/

Svo langar mig að sýna ykkur eina af uppáhaldseldhúsgræjunum mínum. Þetta er stálsápan mín úr Kokku. Ég nudda á mér hendurnar með henni undir rennandi vatni og öll lauklykt hverfur af fingrunum. Gargandi snilld!

2015-10-13 18.32.34

Og þá er fyrsta blogginu lokið. Fyrir tæknibastarð eins og mig tók þetta á. Sem betur fer hélt Hrund í höndina á mér og ýtti á takka fyrir mig. Ég mundi helst nota bara blað og penna og sleppa tölvunni ef ég kæmist upp með það. Ég gleymi mér líka oft og nota bara hníf og skurðarbretti þótt ég eigi fullt af flottum græjum til að einfalda lífið fyrir mig. Soldið gamaldags.

One thought on “Naglasúpa

  1. Þessi heili hvítlaukur flokkast víst undir það að vera kínverskur…ótrúlega þægilegur og það þarf heldur ekki eins mikið af honum svo hann endist lengur:)

    Like

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s