Kjötbollur og gin

Ég gerði kjötbollur í kvöldmat. Það er fáránlega þægilegur og auðveldur matur. Tengdamóðir mín kær og húsband kaupa hálfan skrokk eða eitthvað álíka beint frá býli á hverju ári og ég fæ dásamlega gott hakk á færibandi, það er búbót í lagi. Núna er hakkið hins vegar búið og á meðan ég bíð og vonast eftir meira kaupi ég bara hakk frá Íslandsnauti út í búð.

Það er svo auðvelt að leika sér með kjötbollurnar og þær eru aldrei eins hjá mér. Í þessar fór:

500 g nautahakk2015-10-15 17.30.43

1 egg

hálfur pepperoniostur

dálítið af rifnum parmesan

1 tsk. salt

1 tsk marjoram

1 tsk. steinselja

1 tsk. kjúklingakrydd

1 tsk. steikarkrydd

hálfur hvítlauksgeiri (líklega tveir venjulegir, samanber umræðu um hvítlauk á blogginu í gær)

Þessi uppskrift er engan veginn heilög. Ég er með þvílíkt ostablæti þessa dagana. Ég á núorðið alltaf svona kringlótt oststykki sem fást í öllum bragðtegundum til að nota í hveitilausa hrökkbrauðið mitt. Það fer hálfur ostur í eina uppskrift af því og þá er hálfur eftir sem má nýta í ýmislegt. Ég mæli með pepperoniostinum, var að smakka hann í fyrsta skipti um daginn og gæti alveg tekið stykkið og fengið mér bita. En ég geri það ekki. Þið getið líka notað fetaost. Eða bara sleppt ostinum.

Ég notaði líka bara þurrkað marjoram og steinselju af því að ég átti það til og þurrkaða basilikan var búin. Ég mundi nota allt þurrkað krydd nema rósmarín og timían í kjötbollur.

Kryddinu má líka breyta. Mér finnst allar tegundir af kjúklingakryddi góðar í ýmsa rétti, það er yfirleitt hvítlaukur og paprika og pipar og eitthvað þannig í því og það er mjög gott í kjötbollur. Steikarkrydd fæst líka í mörgum útgáfum og ég nota það á allt kjöt. Notið bara eitthvað svipað sem þið eigið til. Ég mældi alla vega kryddið með SKEIÐUM fyrir ykkur. Það hef ég örugglega aldrei gert í lífinu áður.

Þið hnoðið svo allt saman í höndunum og mótið bollur, ég hef mínar frekar stórar. Ég setti slatta af smjöri á pönnuna því að ég ætlaði að nota restina af því ásamt soðinu í sósu á eftir. Ég setti olíu með til að smjörið brynni ekki og steikti  bollurnar stutt á snörpum hita á, sneri þeim einu sinni. Svo setti ég þær í eldfast mót og inn í  170 gráðu heitan ofn þar sem þær kláruðust að eldast á 10 mín., þær voru aðeins rauðar að innan en stökkar að utan þegar ég setti þær inn í.

2015-10-15 17.38.48  2015-10-15 17.55.56

Sósuna gerði ég á sömu pönnunni og ég steikti bollurnar á og notaði allt soðið sem varð eftir á henni. Svo var líka í sósunni:

3 dl matarrjómi (sirka, ég gleymdi að nota desilítramál fyrir ykkur)

2-3 tsk. lífrænn nautakraftur

1 tsk. salt

1 tsk. rifsberjahlaup

Mér finnst nautakjötskraftur í teningum virkilega vondur. Ég notaði þannig síðast þegar ég gerði kjötbollusósu og fannst mjög vont aukabragð af henni, en það er bara ég. Þessi lífræni er mjög mildur og góður. Ég þykkti sósuna ekkert, fannst það ekkert þurfa.

Og vá hvað þetta var gott! Þetta var með bestu bollum sem ég hef gert. Ég reyndari borðaði ekkert fyrr en löngu eftir að ég kláraði að elda, gaf bara stelpunum og fór svo á æfingu með unga yngri í eftirdragi. Nú er konan mín bara alltaf í vinnunni og maður þarf að sjá um hlutina sjálfur hérna! Fer á æfingu og það er bara allt eins og ég skildi það eftir þegar ég kem heim. Enginn lúxus lengur.
2015-10-15 20.35.15

Ég veit að þetta er pínu sjúkt með chillípiparinn með öllu. En ég ólst upp við það hjá pabba að chilli væri bara eins og hver önnur rúsína. Eða kálblað. Hann var með heilu laukana með öllu og beit í þetta eins og ekkert væri. Ég gerði bara það sama. Tók smá tíma að venjast brunanum. En síðan hefur mér fundist þetta ómissandi. Það tók svo steininn úr þegar ég var ólétt, ég bara missti tökin. Borðaði piparinn úr krukku og skolaði niður með kaffi. Var með hann on the side með grjónagrautnum. Hrund spurði mig varlega á einum tímapunkti hvort ég væri viss um að þetta hefði engin áhrif á barnið. Svona eftir á að hyggja, núna þegar unginn er fæddur,  þá er einhver eldur innra með henni, einver innri pipar, það er alveg á hreinu.

Í eftirrétt fékk ég mér svo gin. Vinkona mín spurði hvort hún þyrfti að hafa áhyggjur af þessari gindrykkju sem samkvæmt samfélagsmiðlum lítur út fyrir að vera mikil. Hún er samt ekki mikil. Og ég sagði henni að á meðan athyglisbresturinn væri í góðum gír þyrfti hún ekki að hafa áhyggjur. Í gær var ég til dæmis ekki að fara á æfingu, sem gerist ekki svo oft, og blandaði mér einn gin og tonic á meðan ég eldaði. Um þremur tímum seinna geng ég inn í eldhús og þar er drykkurinn. Ég hafði fengið mér eins og tvo sopa og svo gleymt honum. Ég setti bara glasið inn í ísskáp og þegar ég var að tala við vinkonu mína var ég að dreypa á dagsgömlum drykk. Hann var ekkert mjög góður.

En fáið ykkur kjötbollur. Og gin er líka gott.

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s