Uppáhaldsréttur Hrundar – nachos með hakki

Ég skrifaði Hrundar, ekki Sprundar. Það er ákveðið afrek, ég kalla hana afar sjaldan Hrund. Það er mjög oft Sprund en líklega enn oftar Þóris, það er auðvitað frekar fáránlegt, þótt hún sé Þórisdóttir, en oft má finna mig úfna um hausinn með 100 hálfkláruð verk í gangi, opna uppþvottavél, skítugan þvott undir handleggnum, matinn í ofninum, einhvern heimalestur barns í gangi inni í eldhúsi og galandi Þóóóóóris, af því að að ég verð að segja henni eitthvað. Ég þarf svo mikið að segja henni á hverjum degi. Og hún mér. Og núna þegar hún bæði vinnur og er í skóla og ég vinn og treð inn eins miklum dansi og ég get þá tölum við þegar við getum stundum þannig að maturinn brennur eða börnin komast ekki að.

Aníhú. Þetta er nýtt uppáhalds. Sagði Hrund áðan. Og sagði svo ekki meir því að hún var að borða. Stelpurnar þögðu líka og hökkuðu í sig. Þetta fannst öllum gott. Þetta hefur verið yndisleg helgi, systur í vetrarfríi og við vorum með fjölskylduafmæli fyrir Röskvu sem verður 6 ára 30. október. Það var brjálað stuð. Svo var það bara bíó og sund í dag. Ég hafði það svo gott og slakaði svo mikið á að ég gleymdi að fara með Röskvu á skautaæfingu. Þetta er í annað skipti sem það gerist á sunnudegi. Ég sagði Hrund að það væri góðs viti, það þýddi að ég væri slök en ekki með áhyggjur af öllu. Þegar ég er svona slök man ég ekki neitt og bara skemmti mér. Við getum ekki farið að kvarta yfir því. Nema Röskva sem varð pínu tjúll yfir að missa af æfingu.

Ég var svo slök að ég ákvað að hafa skyndibitamat, heimagerðan. Þetta er lygi. Ég var fyrir löngu búin að ákveða að hafa þennan rétt. Ég sá uppskrift að gratíneruðu tacoi inni á Ljúfmeti og lekkerheit um daginn og hef beðið spennt eftir að prófa það síðan. Ég breytti auðvitað aðeins, gat ekki annað, en annars er þetta svipað og hér: http://ljufmeti.com/2012/07/17/gratinerad-taco/ Mín útgáfa, sem ég mæli eindregið með, er svona:

500 g nautahakk

1/2 paprika

1/2 hvítlaukur (þessi kínverski)

1/4 rauðlaukur (ég var með mjög stóran lauk)

1 dós gular baunir

taco-krydd í bréfi

1 dl vatn

Saxið papriku og rauðlauk og steikið með hakkinu á pönnu. Rífið hvítlauk út í . Bætið taco-kryddi og vatni við þegar hakkið hefur brúnast. Steikið þar til allur vökvi hefur gufað upp og blandið þá gulu baununum saman við.

Í eldfast mót fer:

1 askja rjómaostur

770 ml krukka af salsa

1 dós 5% sýrður rjómi

rifinn ostur

nachos

Áður en ég held áfram vil ég taka fram að á mínu heimili tölum við um salsa, ekki salsasósu. Þeir sem kunna spænsku vita að það þýðir sósasósa. Ég vil frekar sósu en sósusósu. Salsa þýðir sósa. Ok. Búið. Nei, vil líka segja að ég tala um salsa í hvorugkyni, veit ekki af hverju.

Smyrjið rjómaosti að eiginn vali í botninn á mótinu. Hellið salsanu yfir og því næst sýrða rjómanum. Blandið honum saman við salsað og hellið hakkinu þar ofan á. Drefið rifnum osti yfir og þekið með nachosi. Dreifið að lokum meiri osti yfir. Hitið í ofni í 20 mín. við 180 gráður eða þar til þið sjáið að salsað er farið að bubbla, þá er gúmmelaðið orðið heitt.

2015-10-25 19.36.42 2015-10-25 20.11.54

Með hafði ég baunamauk (úr dós, þetta var heimagerður skyndibitamatur), salat, guacamole, rauðlauk og chillí. Pabbi kenndi mér að gera heimsins besta gucamole. Málið er að hann gerir heimsins besta guacamole, mitt verður aldrei eins gott. En samt svakalega gott. Venjulega nota ég ekki rauðlauk heldur ferskan hvítlauk í það en það er nauðsynlegt að breyta reglulega til:

4 litlar þroskaðar lárperur

hálf dós kotasæla

1 lime

1 tsk. hvítlauksduft

1/4 rauðlaukur

salt eftir smekk

Skiptið lárperunni í tvo helminga og skafið kjötið innan úr með skeið. Kreistið lime yfir og stappið, ekki of mikið, þetta er ekki barnamatur. Blandið lauk, kryddi og kotasælu við og kælið áður en þið borðið, það er alveg nauðsynlegt.

Ooooog borða!

2015-10-25 20.15.49

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s