Bananar í ofni

Ég hef áður lofað banana á þessu bloggi, í annarri bananauppskrift. Þegar ég var í Svíþjóð hjá pabba sem krakki gerði hann oft banana í ofni handa mér í eftirrétt. Hann gaf mér aldrei nammi en ég mátti fá svona banana á hverju kvöldi og sæt lykt af bönunum og kanil minnir mig alltaf á þessa tíma. Við eyddum ómældum tíma í að elda saman og borða saman og það er eitthvað sem ég mun alltaf búa að.

Ég er alltaf á leiðinni að setja inn uppskrift að hjúpuðum bönunum, uppáhaldinu hennar Röskvu minnar, en ég gleymi að kaupa kókosmjólk í hvert skipti sem ég fer í búð. Það kom þó ekki að sök í kvöld, þessi bananar eru betri ef eitthvað er. Ég átti þrjá banana og eina peru sem lágu undir skemmdum svo ég notaði það. Þetta passaði með þeim litla ís sem var eftir í frystinum handa mér og stelpunum mínum tveimur, sem betur fer er konan mín engin eftirréttarkona því að hún hefði ekki fengið neinn í þetta skiptið. Ég átt líka matreiðslurjóma sem var að renna út og notað hann en pabbi notaði aldrei annan vökva en vatn, sem er ekkert síðra.

3 þroskaðir bananar2015-11-24 17.48.26

1 pera

1 1/2 msk púðursykur

1 1/2 msk hunang

1 tsk kanill

1 1/2 dl matreiðslurjómi eða vatn

Þetta er súpereinfalt eins og uppskriftin ber með sér og sá Röskva um að græja þetta. Skerið banana í tvennt og helmingana aftur í tvennt og raðið í mót. Skerið peruna í bita og raðið ofan á. Stráið púðursykri yfir og dreifið hunanginu þar yfir og stráið kanil ofan á allt. Hellið rjómanum/vatni yfir allt og bakið í ofni í 20-30 mín. á 170° með blæstri. Mæli með því að hafa ís með og raspa suðusúkkulaði yfir. Namm.

2015-11-24 18.32.24

 

 

Einföld grænmetissúpa

Mér finnst alltaf gaman að elda, hvort sem það tekur langan eða stuttan tíma, en það er alveg nauðsynlegt að geta töfrað fram næringarríka og einfalda máltíð á stuttum tíma. Eins og ég hef áður sagt er ég mikil súpukona og þær verða oftast fyrir valinu, ja bæði þegar ég hef góðan tíma til að elda og stuttan. Í þessa hversdagssúpu fyrir tvo fullorðna og tvö börn fer:

ólívuolía2015-11-24 17.52.35

smjörklípa

1/2  saxaður laukur

2 saxaðir hvítlauksgeirar

2-3 cm af púrrulauk

1/2 paprika

3 litlar rifnar gulrætur

1 l vatn

2 msk lífrænn grænmetiskraftur (eða einn teningur)

1/2 tsk marjoram

1/2 tsk timían

1/2 tsk karrý

1/2 tsk salt

1/4 tsk chillíduft

2 lúkur pasta að eigin vali

1 krukka soðnar kjúklingabaunir, ég nota frá Himneskt en þið getið notað úr dós

rifinn parmesanostur eftir smekk

Hitið ólívuolíu og smjör í potti og bætið lauknum út í. Leyfið honum að malla um stund á lágum hita og setjið svo hvítlaukinn út í. Leyfið þessu að malla á meðan þið skerið papriku og púrrulauk. Ég notaði græna og rauða papriku en þið notið bara það sem þið eigið. Bætið þessu út í og mýkið um stund. Hellið svo einum lítra af vatni í pottinn og bætið við gulrótum og kryddi. Setjið pastað út í og baunirnar og leyfið safanum úr krukkunni að fara með í pottinn. Rífið parmesan út í. Það er ekki nauðsynlegt en gefur gott bragð, ég notaði kannski 1/2 dl. Sjóðið þar til pastað er tilbúið. Gott að bera fram með hrökkbrauði eða ristuðu brauði. Það er ekki nauðsynlegt að hafa pasta í súpunni en það er vinsælt hjá krökkunum. Sjálf reyni ég að borða ekki of mikið af kolvetnum, mér líður betur af því, og tek því pastað úr og sleppi hrökkbrauði eða brauði. Kjúklingabaunirnar eru frábær prótíngjafi og auk þess mjög seðjandi. Þessi súpa rann ljúflega ofan í alla og fékk þá einkunn að vera blogghæf og meira til svo að ég deili henni með ykkur.

 

 

 

Beikonvafinn kjöthleifur með ostafyllingu

Mig er búið að langa til að gera kjöthleif alveg svakalega lengi, eitt af því sem ég hef ekki gert áður, og ég lét verða af því í gær. Við vorum 8 í mat, þar af 2 börn, og það var smá biti eftir. Ég gerði fullan pott af sósu sem kláraðist og það var haugur af kartöflum og gulrótum með. Í tveimur orðum sagt var þetta dásamleg gott.

Eins og alltaf þegar mig langar að prófa eitthvað nýtt leita ég að hugmyndum á netinu. Ég fann eina góða á matarblogginu Eldhússögum og aðra á Ljúfmeti og lekkerheit og gerði svo mína eigin uppskift og skrifaði hana niður um leið fyrir ykkur. Það er erfitt að elda mat sem ekki er hægt að smakka til, því að ekki langar mig að smakka hrátt hakk, en þetta tókst mjög vel hjá mér. Ég mæli með því að þið prófið.

Hleifurinn:

2015-11-15 17.37.56

1 kg nautahakk

1 saxaður rauðlaukur

1 kínverskur hvítlaukur (eða 3-4 geirar)

2 ristaðar og raspaðar brauðsneiðar

rifinn parmesan (bara ef þið eigið og magn eftir smekk)

1 egg

grænt krydd (ferskt eða þurrkað) ég notaði slatta af fersku kóríander og 1 msk af þurrkaðri basiliku

1 tsk cumin

1 tsk paprika

1 tsk lífrænn nautakraftur (ekki nota þennan í teningunum, hann er svo vondur, frekar þá grænmetiskraft)

1 pakki beikon (sirka 300 g)

Soðið:

50 g smjör

2 msk tamarisósa (eða soyasósa)

1 tsk lífrænn nautakraftur

4-5 dl vatn

Fylling:

Ostur að eigin vali. Ég valdi ostarúllu vegna þess að þá er osturinn mátulega mjúkur að mínu mati og bráðnar vel. Ég hafði hana með beikonbragði sem gaf góða raun en þið farið eftir ykkar smekk. Ég notaði eina og hálfa rúllu.

Sósa:

1 msk smjör

2-3 msk hveiti

allt soðið af kjötinu

4-5 dl matreiðslurjómi

1-2 tsk lífrænn nautakraftur

sulta

salt

Setjið hakkið í stóra skál ásamt restinni af hráefnunum og hnoðið með höndunum. Hleifurinn má ekki vera of blautur en brauðmylsnan á að sjá til þess að svo verði ekki. Setjið 2 msk af ólívuolíu í stórt eldfast mót og smyrjið það að innan með henni. Takið helminginn af kjötinu og mótið það í rúllu í mótinu. Skerið ostarúlluna í sneiðar og raðið ofan á rúlluna. Setjið restina af kjötinu ofan á og lokið vel á hliðunum svo að osturinn haldist inni í.2015-11-15 17.48.37 2015-11-15 17.50.58

Snúið ykkur þá að soðinu. 2015-11-15 17.55.06Bræðið smjörið og hrærið kraftinn og tamarisósuna út í. Hellið soðinu yfir hleifinn. Hluti af því fer ekki inn í kjötið og safnast í botninum á mótinu en þannig á það að vera. Þekið því næst hleifinn með beikonsneiðum. Ég tróð endunum á beikoninu inn undir hleifinn sitthvoru megin svo að það héldist vel. Að lokum bætið þið vatninu við, ekki samt hella því yfir hleifinn heldur meðfram honum. Steikið í 200° heitum ofni í 50-60 mín. Rétt áður en hleifurinn er tilbúinn er gott að byrja á sósunni. Búið til smjörbolluna (þið getið líka þykkt með maizena ef þið viljið það frekar), takið svo mótið úr ofninum og hellið öllu soðinu í því í pottinn. Hrærið vel eða þar til smjörbollan er uppleyst. Bætið þá rjóma út í og hrærið vel. Setjið að lokum kraftinn og smakkið til með sultu og salti.

Setjið hleifinn á stórt bretti og skerið í sneiðir. Berið fram með rótargrænmeti og sósunni og ferskum kryddjurtum ef þið eigið.

2015-11-15 18.46.24     2015-11-15 18.53.03

Súpa úr nýrnabaunum með eggi

Þessi súpa er mjög er eitthvað sem þið getið líklega fengið á flestum stöðum í latinoamerica. Ég nýt góðs af því að eiga latinopabba, hann hefur kennt mér ýmislegt sem ég hefði aldrei annars lært. Nýrbaunir eru dagleg fæða í Nicaragua, þaðan sem pabbi er, og að mér finnst algjört sælgæti. Ég bjó og vann um tíma í Costa Rica og þar var svona súpa í hverju einasta hádegi í skólanum þar sem ég vann. Ég ferðaðist um alla Mið-Ameríku og meðal annars hitti ég fjölskylduna mína í Nicaragua í fyrsta skipti. Amma vildi, eins og allar aðrar ömmur, að ég borðaði nú eitthvað og ákveð að gera vel við mig og bjóða mér kornflex í fyrsta skipti sem ég gisti hjá henni. Ég bað vinsamlega um að fá bara það sama og hinir og fékk disk með baunum, eggjum og plátano, sem eru grænir banar, ekki mjög sætir. Plátano er nr. 1 á listanum mínum yfir besta mat sem ég hef smakkað, hvort sem það er plátano frito með morgunmatnum eða þurrkað plátano, stökkir bitar með salti. Ég dey. Þetta er svo gott.

Fyrir tveimur árum var pabbi í heimsókn hjá okkur og eldaði súpu úr nýrnabaunum sem var svo góð að hvorki ég né litla systir, sú baunaæta, höfum jafnað okkur síðan. Mér mun aldrei takast að gera jafn góða súpu en ég er að æfa mig. Um daginn gerði ég súpernachos og hafði baunir með. Ég var búin að ákveð að nýta afganginn í súpu svo ég lagði 3 dl af baunum í bleyti. Það gefur ykkur alveg slatta af baunum með nachosi fyrir 4 og afgang í 2 lítra af súpu. Ég hafði hvítlauk og cumin með baununum á meðan þær voru í bleyti svo að þær tækju bragð og af því að pabbi gerir það alltaf. Ég get ekki ímyndað mér að það stytti suðutímann mikið því að ég hélt að ég mundi gefa upp öndina á meðan ég beið eftir að baunirnar yrðu mjúkar, eftir 2 tíma voru þær rétt ætar en þær urðu svo betri með hverri suðu. Kíkjum á þetta.

3 dl nýrnabaunir

vatn þannig að fljóti vel yfir

1/2 kínverskur hvítlaukur eða 2 geirar

2 tsk cumin

Látið liggja í bleyti yfir nótt. Þegar þið ætlið að sjóða baunirnar bætið þið við:

Sirka 1 lítra af vatni

1/4 af söxuðum rauðlauk

1 dl af fersku kórander

1 tsk af salti

1 tsk af cumin

1 tsk af þurrkuðu kórander

Þið verðið að smakka súpuna til, það er líka skemmtilegra að elda þannig. Daginn eftir að ég sauð baunirnar og hafði með nachosi hafði ég súpuna og sauð baunirnar þá aftur í klukkutíma. Súpan er alveg hrikalega góð með eggi og það gerði ég líka eins og pabbi gerir. Passið að súpan sé sjóðandi heit. Ég braut svo eggið á brúninni á pottinum og setti það út í, ekki láta það leka neitt, bara hendið því út í. Það fer alveg á bólakaf í súpuna en látið það vera þar í kannski 3 mín. Ég vil hafa eggið linsoðið svo að ég hef suðutímann stuttan en ef þið viljið hafa eggið harðsoðið bætið þið nokkrum mínútum við. Þið veiðið svo eggið upp úr með spaða eða ausu, hvítan umlykur eggið og þótt það sé ekki mjög fallegt á að líta er það hrikalega gott. Ausið súpu og baunum í skálina og njótið.

Ég er ekki viss um að ég ætti að vera setja inn myndir, súpan er ekkert girnileg á mynd og svo var ég búin að vera að hamfarakokkast eitthvað á myndinni af súpupottinum með egginu í og slettur á eldavélinni og eitthvað svona sem kannski hæfir ekki alvöru matarbloggum. Á myndinni með súpuskálinni er svo mikil gufa af því að súpan var rjúkandi heit en ég gat ekki beðið eftir því að byrja að borða þannig að ég tók ekki aðra mynd. Mér til afsökunar var ég líka að baka vöfflur á sama tíma, ég er alvöru múltíasker.

2015-11-07 15.22.38-2
2015-11-07 15.26.02

Þegar Hrund kom heim af kvöldvakt sama dag hitaði ég súpuna handa henni og gaf henni með eggi. Baunirnar maukast aðeins við hverja suðu og það er svo sannarlega ekki verra. Daginn eftir hitaði ég súpuna aftur og fékk mér í hádegismat. Enn þá á ég smá eftir að súpunni og ég ætla að borða hana ein.

Guacamole

Pabbi kenndi mér að gera guacamole, eins og svo margt annað í eldhúsinu. Hann er besti kokkur sem ég veit um og eldar af svo mikilli ástríðu að það er dásamlegt að fylgjast með honum. Bestu stundirnar mínar með pabba hef ég átt með honum í eldhúsinu, alveg frá því að ég var ponsupeð og enn þá er það þannig. Ég hugsa alltaf til hans þegar ég elda. Um leið og eldhúsið fer að ilma af hvítlauk, sítrónum og kóríander skellur nostalgían á mér eins og flóðbylgja.

Ég nota guacamole með hakkréttum, súpum, kjúklingi og svo er það gott bara beint upp úr skálinni. Hér að neðan er það ásamt öðru meðlæti sem ég hafði með súpernachosi með kjúklingi, ómissandi með því eins og öðru.

2015-11-06 19.15.11

4 litlar þroskaðar lárperur (þessar sem fást í neti)

1/2 kínverskur hvítlakukur (2 venjulegir geirar)

safi úr 1/2 sítrónu

1 lítil dós kotasæla

1 tsk salt

ferskt kóríander

Uppskriftin er í þeirri röð sem ég geri hlutina. Fyrst sker ég hverja lárperu í tvennt, fjarlægi steininn og sker svo tvær rendur langsum í hvorn helming og þrjár rendur þvert yfir. Þegar ég skef kjötið úr hýðinu með skeið er það þá þegar í bitum og auðveldara að mauka það. Ég veit ekkert hvort þið skiljið mig. Þið getið líka bara skafið kjötið beint úr hýðinu í skál og stappað svo, mér finnst samt alltaf betra að hafa smá bita, ekki alveg maukað. Þegar kjötið er komið í skálina rífið þið hvítlaukinn út í, kreistið sítrónu yfir, blandið kotasælunni saman við og saltið að lokum. Það er rosaleg gott að setja ferskt kórander út í en bara ef þið eigið það til og bara ef þið fílið það. Setjið maukið í ísskáp í að minnsta kosti 30 mín. áður en þið borðið það. Pabbi segir að það sé alveg nauðsynlegt og það er það. Mæli með því að nota þetta með nánast öllu.

Anna Lisas-kaka

Þessi kaka er stórmerkileg. Fyrir það fyrsta hefur þetta alltaf verið uppáhaldskakan mín. Og margra annarra. Í hvert skipti sem ég hef bakað hana og borið fram hef ég verið beðin um uppskrift og Elísabet systir mín var einmitt að segja mér það sama áðan, það kalla þetta allir kökuna hennar Elísabetar í hennar vinahópi því að uppskriftina hafa þeir fengið frá henni. Svo fyrir einhverjum árum fór ég að sjá svipaða uppskrift alls staðar, líklega þegar matarbloggin fóru að spretta upp. Þangað til hafði ég aldrei einu sinni smakkað svona köku hjá öðrum en fjölskyldunni minni en núna má finna uppskrift að sænskri kladdköku hvar sem er.

Mér finnst þetta svo merkilegt því að uppskriftina sem ég nota komst mamma mín yfir í Svíþjóð 1978 þegar hún bjó þar. Þá var það vinnufélagi mömmu sem heitir Anna Lisa sem kom með umrædda köku í vinnuna og mamma fékk uppskrift og vélritaði á blað, Anna Lisas-kaka. Þegar ég flutti að heiman fyrir 10 árum var þessi uppskrift sú fyrsta sem ég skrifaði hjá mér. Og núna er hún úti um allt! Það er allt í lagi ef ykkur finnst þetta ekki merkilegt, mér finnst það samt.

Alla vega á þessi kaka alltaf við. Ef hún tekst vel er hún mjög blaut og pínulítið seig, eins og karamella. Ég gerði tvöfalda uppskrift fyrir sunnudagsmatinn áðan, enda dugir ekkert minna fyrir 8 átvögl. Uppskriftin mín er að sjálfsögðu á sænsku en ég skal snara henni yfir á íslensku fyrir þá örfáu sem ekki eiga hana nú þegar:

2 egg

3 dl sykur

2 1/2 tsk vanillusykur

4 msk kakóduft

1/2 tsk salt

1/2 dl hveiti

1 dl brætt smjör (100 g)

1 tsk lyftiduft

Hrærið egg og sykur saman. Blandið hinum hráefnunum saman við. Bakið við 150° á blæstri (175° án blásturs) í 30-40 mín.

Ekki baka kökuna of lengi! Bara ekki gera það. Hún á lyfta sér vel og á svo að falla. Þegar það hefur gerst sting ég prjóni reglulega í kökuna, þegar ég sé að hún er hætt að vera deig en er samt enn þá vel blaut kippi ég henni út.

Hú er auðvitað góð með öllu en þar sem ég er engin rjómakona hafði ég ís með og jarðarber og hindber. Ég rétti náði að forða síðasta bitanum handa ástkærri eiginkonunni sem er að vinna. Ég veit ekki hvað er með þessar myndir úr fókus hjá mér þessa dagana, afsakið það.

2015-11-08 19.03.36

Hægeldað lambalæri

Lambalæri er málið, bara alltaf. Alveg á topp fimm listanum hjá mér, en ég hef líka lagt mig mikið fram við að læra að elda það eins og ég vil hafa það. Mér finnst best að hægelda það og þurrsteikja, ég komst að þeirri niðurstöðu eftir mikla upplýsingaöflun og nokkrar tilraunir. Ég skellti í læri með öllu í dag og bauð besta fólkinu. Það er auðvitað alveg óheyrilega mikið af góðu fólki í lífi mínu en besta fólkið fæ ég í mat annan hvern sunnudag og þá elítu skipa systkini mín, fallegustu, bestu og mestu, og viðhengi, mamma, sem er toppeintak af manneskju og ég er með alla daga af því að hún er svo skemmtileg, og svo amma eldgamla.

Lærið var keypt frosið daginn áður en ég ætlaði að hafa það og það fékk allan daginn til að þiðna og fram á næsta morgun. Ég hafði það bara í eldhúsvaskinum í sólarhring, ég er ekkert að vesenast með kjöt í kæli þegar ég er að fara að elda það daginn eftir, leyfi því bara að meyrna. Þetta væna stykki var 3,2 kíló sem dugði í matinn fyrir 8 og samt var afgangur sem ég mun nýta á morgun.

2015-11-08 11.35.09

Ég byrjaði á því að kveikja á ofninum og stillti hann á 120° með blæstri. Ef þið eruð ekki með blástursofn skulið þið stilla ofninn á 140°. Athugið að þessi hiti miðast við hægeldun. Svo skellti ég lærinu á bretti og þerraði með pappír. Ég skar niður tvo kínverska hvítlauka, örugglega 8-10 geirar, stakk með hníf með mjóu blaði hér og þar í lærið og tróð lauknum inn í. Ég setti nokkrar matskeiðar af ólífuolíu í skál, blandaði kryddum saman við og nuddaði svo kryddblöndunni inn í lærið svo að það varð þakið blöndunni. Þið sjáið kryddin á myndinni en þau eru ekkert heilög.

Ég setti lærið á grind og í miðjan ofnin. Fyrir neðan hafði ég ofnskúffu og í henni einn niðurnseiddan lauk, hálfan rauðlauk og einn heilan hvítlauk. Ekkert vatn því að ég vildi þurrsteikja lærið. Ef þið setjið vatn í ofnskúffuna eruð þið að gufusjóða lærið, sem er allt í góðu en mér finnst mun betra að þurrsteikja. Á meðan lærið eldast vökvast það með soðinu, fitan efst bráðnar og smýgur inn í kjötið og svo lekur neðan af lærinu og í ofnskúffuna og það nýti ég mér í sósu.

2015-11-08 16.55.21

Ég steikti lærið við sama hita frá 12-16.30. Ég lét það svo standa inni í ofni til kl. 18. Það þarf ekki að standa svona lengi, 15-20 mínútur duga alveg, og það þarf ekki að vera inni í ofni, það bara hentaði mér núna. En látið kjötið alltaf jafna sig, það breytir öllu að það fái að standa í einhvern tíma áður en það er skorið. Ég þurfti varla að skera kjötið, það datt af beininu, en var samt dásamlega safaríkt og braðmikið.

Til þess að búa til sósu úr soðinu sauð ég vatn og hellti í ofnskúffuna og lét standa í kannski 5 mínútur. Ég vildi gera mikið af sósu, sósukonan sem ég er, og litla systir,  þannig að ég hellti alveg nálægt lítra í skúffuna. Sjóðandi vatnið mýkir laukinn og það verður auðveldara að losa skófirnar. Svo setti ég sigti á pott og hellti soðinu í og marði laukinn í sigtinu til að ná nú öllu bragðinu. Yfirleitt dugir þetta bara í sósuna, soðið er svo bragðmikið. Ég set stundum smá matreiðslurjóma en það þarf ekki. Skófirnar lita sósuna svo að hún verður fallega brún á litinn, það þarf engan sósulit í þessa sósu. Þegar ég var að elda sósuna áðan missti ég takið á ofnskúffunni og mestallt soðið fór í vaskinn, í bókstaflegri merkingu. Aldrei þessu vant þurfti ég að bragðbæta soðið, ég setti salt og rósmarín, rifsberjasultu og rifinn parmesan og sósan varð æðisleg á endanum.

Ég er svo gamaldags að ég vil bara hafa sultu og baunir og kartöflur með. Eða gulrætur þar sem ég sleppi kartöflum þessa dagana. Eins og mér fannst soðnar gulrætur mikill viðbjóður þegar ég var lítil þá finnst mér þær svakalega góðar núna. Reyndar þarf ég alltaf að poppa hlutina aðeins upp svo að ég fæ mér cillísultu með sem ég gerði sjálf. Við mamma vitum ekkert betra. Ég ætla að gefa henni lítra af sultu í jólagjöf, það er það sem hana langar í.

Prófið að þurrsteikja lærið, það er geggjað. Eða horfið bara á þessa mynd sem er verulega úr fókus.

2015-11-08 18.18.30

Súpernachos með kjúklingi

Nýrnabaunir eru eitt það besta sem ég veit. Þær kenndi pabbi mér að borða. Hann notar þær í allt og súpan hans úr nýrnabaunum með eggi er bara það besta sem ég hef nokkurn tíma smakkað, án efa. Ég er ekki eins klár að elda þessar baunir og hann en ég er að æfa mig. Ég var búin að ákveða að hafa nachos í dag og vildi hafa baunir með og lagði þær því í bleyti í gær. Ég setti þrjá dl í pott og lét vatn fljóta vel yfir.  Þetta er mikið af baunum en ég ætla að gera súpu úr þeim á morgun og vildi því gera vænan skammt. 1 dl dugir bara fyrir nachosið. Ég skar einn kvínverskan hvítlauk, eða 4 geira, út í og setti eina tsk af cumin með. Um leið og ég kom heim í dag kveikti ég svo undir pottinum, bætti fullt af fersku kóríander út í og kreisti sítrónu yfir, kannski 1 msk. Baunirnar þurfa alveg 2 tíma  í suðu og ef þið hafði ekki þann tíma getið þið notað baunir úr dós, ekki það sama en það má alltaf redda sér.

Á meðan baunirnar suðu græjaði ég nachosið. Athugið að þessi uppskrift er fyrir 4-6, við vorum þrjár að borða og eigum slatta í afgang.

Ég byrjaði á kjúklingnum:

500 g kjúklingafilé

1 saxaður rauðlaukur

smjörklípa

ólífuolía

kjúklingakrydd eða annað krydd að eigin vali

Ég skar kjúklinginn í litla bita og steikti á pönnunni með lauknum í smjöri og óífuolíu þar til bitarnir voru steiktir í gegn. Ég kryddaði með kjúklingakryddi og salti og kryddaði vel, ég þoli ekki bragðlausan kjúkling. Þegar kjúklingurinn var tilbúinn slökkti ég undir pönnunni og tók hana af hellunni og sneri mér að guacamolinu:

4 litlar þroskaðar lárperur (þessar sem fást í neti)

1/2 kínverskur hvítlaukur (2 venjulegir geirar)

safi úr 1/2 sítrónu

1 lítil dós kotasæla

1 tsk salt

Ég sé að ég hef skrifað uppskriftina einmitt í þeirri röð sem ég geri hlutina. Fyrst sker ég hverja lárperu í tvennt, fjarlægi steininn og sker svo tvær rendur langsum í hvorn helming og þrjár rendur þvert yfir. Þegar ég skef kjötið úr hýðinu með skeið er það þá þegar í bitum og auðveldara að mauka það. Ég veit ekkert hvort þið skiljið mig. Þið getið líka bara skafið kjötið beint úr hýðinu í skál og stappað svo, mér finnst samt alltaf betra að hafa smá bita, ekki alveg maukað. Þegar kjötið er komið í skálina rífið þið hvítlaukinn út í, kreistið sítrónu yfir, blandið kotasælunni saman við og saltið að lokum. Setið maukið í ísskáp á meðan þið gerið restina. Þið þurfið:

1 stóran poka nachos

350 ml krukku af salsa

1 dós af 5% sýrðum rjóma

rifinn ost

Setjið bökunarpappír á plötu og þekjið með nachosi. Ristið við 130° með blæstri í nokkar mínútur eða þar til snakkið hefur tekið smá lit, takið þá plötuna út úr ofninum. Stráið rifnum osti yfir heitt nachosið og dreifið kjúklingi þar ofan á. Hellið salsanu yfir allt saman og sýrða rjómanum ofan á salsað. Toppið með osti. Bakið við 160° með blæstri í 10 mínútur eða þar til osturinn er bráðnaður.

2015-11-06 19.31.19 2015-11-06 19.32.07

Ég notaði stóra skeið til að ná mátulegum skömmtum af plötunni og færa á disk. Ég stráði svo ilmandi nýrnabaunum yfir nachosið og hafði rauðlauk, ferskt kórander, ferskt chilli og sýrðan rjóma með. Eftir á að hyggja hefði ég alveg verið til í meira salsa með svo að næst mun ég kaupa stærri krukku.  Hrikalega gott. 2015-11-06 20.06.07

Steiktir bananar

Bananar eru bestir, það er bara þannig. Mér finnst rosalega gaman að gera eftirrétti og geri þá oft og iðulega, líka á virkum dögum, alla vega einu sinni, en reyni þá að hafa þá ekki of óholla. Það er svo  ótrúlega notalegt setjast aftur við eldhúsborðið með stelpunum mínum eftir að við erum búnar að ganga frá eftir matinn. Ungarnir komnir í náttfötin og ró í mannskapinn.

Röskva er algjör bananaæta og einu sinni þegar ég tók út allar mjólkurvörur hjá henni, ástæðan er efni í annað blogg sem ég ætla ekki að stofna, lá ég á netinu og reyndi að finna eitthvað einfalt og mjólkurlaust í eftirrétt og datt niður á fullt af uppskriftum að steiktum bönunum. Ég endaði á því að gera banana sem ég hjúpaði með hveiti og kókosmjólk og steikti í kókosolíu. Þetta var brjálæðislega gott og hefur verið í uppáhaldi síðan. Ég ætlaði að gera svona banana áðan, þetta er í fyrsta skipti í vikunni sem ég kem bara heim eftir vinnu og er heima en ekki á æfingu eða að sinna félagslífi barnanna, ég var alveg komin heim að verða sex, eldsnemma, og þá hef ég auðvitað eftirrétt. En ég átti enga kókosmjólk. Fyrst eldaði ég fisk og átti ekki rétta kryddið í hann og svo átti ég ekki kókosmjólk. Það er allt að fara til fjandans hjá mér! Ne, nei, ég læt aldrei neitt svona stoppa mig svo ég gerði aðra útgáfu af steiktum bönunum.  Það er fínt að miða við 1 banana á mann og þar sem við vorum þrjár er sósan nóg á 3 banana. Gjörið þið svo vel:

Skerið bananana í tvennt og hvern helming langsum í þrennt. Steikið við frekar háan hita í 1 msk af kókosolíu á pönnu í um 3 mín. á hvorri hlið eða þar til bananarnir hafa brúnast aðeins. Á meðan bananarnir steikjast gerið þið sósuna:

2015-11-05 19.58.24

1 msk kókosolía

2 msk hnetusmjör

1 tsk hunang

1 tsk kakóduft

1/2 tsk kanill

1/2 tsk salt

Blandið saman við vægan hita í potti. Þegar bananarnir eru tilbúnir er bara að setja þá í skál og hella sósunni yfir. Stelpurnar máttu vart mæla, þeim fannst þetta svo gott. Þá voru þær búnar að koma nokkrum sinnum inn í eldhús á meðan ég var að steikja bara til að anda að sér ilminum. Það er góð einkunn.

Gulrótarfiskur

Ok, ég er að gefast upp á því hvað ég er tæknifötluð. Ég er búin að leita og leita en ég finn ekki hvar ég get búið til uppskriftaflokka. Þetta stefnir í tómt kaos, eða eyðingu bloggsins. Ég vil bara vera með svuntu og skrifa uppskriftir á blað með penna. En þá væri aðeins erfiðara að deila þeim með ykkur. Plís, einhver verður að hjálpa mér. Ég er líka viðbjóðslega óþolinmóð, ef ég finn ekki hluti strax í tölvu bara bilast ég og fer að gera eitthvað annð.

En þá að fisknum. Ég er ekkert klár í að elda fisk  og finnst bara tóm snilld að fara í fiskbúð og velja mér rétti úr borðinu eins og ég sé að fá mér bland í poka. En stundum geri ég fiskrétti sjálf og þessi uppskrift hefur verið í uppáhaldi hjá mér síðan í gagnfræðiskóla. Þvílík heimilisfræðikennsla þar. Elskaði þessa tíma.

Eitt uppáhaldskryddið mitt er estragon. Ég slefa. Bernaisósa væri ekkert án þess.  Ekki þessi fiskréttur heldur. Þess vegna var ég gráti næst þegar ég fattaði að estragonið var búið. Fékk mér nokkra sopa af rauðvíninu og ákvað svo að nota smá þurrkaðan graslauk og marjoram. Rétturin var alveg góður en samt … Ekki gera þetta. Ekki elda réttinn án þess að eiga estragon.

2 roðflett ýsuflök eða þorskflök

2-3 stórar gulrætur2015-11-05 18.46.44

1-2 laukar

væn klípa smjör

1 dós sýrður rjómi

1 dl tómatsósa

estragon, pipar og salt

Saxið laukinn og steikið í smjörinu. Ég nota yfirleitt um 500 g af fiski fyrir okkur fjórar og læta einn lauk duga. Ekki spara smjörið of mikið, það er bara hundleiðinlegt. Laukur og smjör er pottþétt blanda, því lengur sem þið steikið laukinn þeim mun sætari verður hann. Ég læt laukinn malla á vægum hita á meðan ég ríf niður gulræturnar. Ekki heldur spara gulræturnar, þetta verður að guðdómlegu gumsi. Bætið gulrótunum út í og steikið stutta stund í viðbót eða á meðan þið tæmið dós af sýrðum rjóma í skál (mér finnst gott að nota 10 eða 18%) og hrærið tómatsósuna út í. Mér finnst líka gott að setja vel af tómatsósunni, þannig að sósan verði bragðmikil, en þið farið bara eftir ykkar smekk, já, eða eftir uppskriftinni, eitthvað sem mér er greinilega fyrirmunað. Hellið sósunni út á pönnuna og blandið vel saman. Setjið estragon út í. Ég mundi setja mikið, 1-2 msk., aðrir láta 1 tsk duga, byrjið á því og smakkið sósuna  til. Leyfið sósunni svo að sjóða við vægan hita á með þið græið fiskinn. Skerið flökin í bita og piprið og saltið. Hleypið suðunni á sósunni upp, komið stykkjunum fyrir í sósunni á pönnunni (ég þarf alltaf geðveikt að raða, pannan mín er ekkert mjög stór), passið að sósan fljóti yfir, slökkvið undir pönnunni  og látið vera í 10 mín. Tilbúið!

Svo er auðvitað hægt að fá sér hrísgrjón eða kartöflur með, við slepptum því. Röskva fékk sér poppkex með, Rakel flatköku og ég var bara sátt án alls, fékk mér vel af sósu og gumsi. Fiskurinn einhvers staðar þar undir. Rakel hjálpaði mér að elda, henni finnst þessi réttur æði. Myndirnar gera réttinum ekki góð skil, veit ekki hvað gerðist þarna. Var í áfalli yfir estragonleysinu líklega.

2015-11-05 18.48.00 2015-11-05 19.06.46