Hafragrautur á sparifötum

Ég rígheld í það loforð mitt til stelpnanna að vera með mismunandi morgunmat á virkum dögum. Hann er mismetnaðarfullur en ég reyni að hafa hann fjölbreyttan svo að þær séu ekki alltaf að moka í sig kornflexi með mjólk, það gerir bara ekki neitt fyrir neinn, hvað þá börn sem eiga langan dag í vændum. Suma daga geri ég búst, þá er nauðsynlegt að það sé seðjandi og orkumikið og ég nota alltaf lárperur og ferska ávexti og oft hnetusmjör og kókosolíu og spínat ef ég á það til. Farið samt varlega í spínat, ung börn þola ekki mikið af því og ég passa að setja ekki mjög mikið, þótt mín börn séu ekkert rosalega ung lengur, sniff. Það er líka mjög gott að gera súkkulaðibúst með lífrænu kakói, lárperum, banana og kókosolíu. Ég set líka alltaf chiafræ í bústið handa þeim. Þau eru algjör súperfæða. Reyndar borðar alveg að verða 11 ára Rakelin mín eins og togarasjómaður á morgnana, sem er hið besta mál, og hún verður að fá eitthvað meira með bústinu, t.d. hrökkrbrauð eða ristað brauð.

Einhverja daga fá þær morgunkorn eða múslí og geta þá valið um súrmjólk eða mjólk með. Þær fá sér alltaf rúsínur og banana eða perur út í, annars finnst mér þetta ekki nógu næringarríkt, og ég hræri líka chiafræ út í súrmjólkina og oft set ég líka sólblómafræ og sesamfræ. Á föstudögum er sparimorgunmatur, oft redda ég mér með ristuðu brauði og heitu kakói, stundum er jógúrt í boði og þegar ég er eldhress geri ég bananpönnsur handa þeim sem þær fá að borða með lífrænu hlynsírópi eða sykurlausri sultu. Núna þegar það er orðið svona dimmt er ég eins og aðrir alveg að gefa upp öndina við að fara á fætur, 6.45 hringir klukkan og ég þarf að beita mig hörðu til að snúsa ekki lengur en til 7, þið þekkið þetta. Skil ekki hvernig maður gat vaknað mörgum sinnum á nóttunni þegar ungarnir voru litlir og verið svo komin á fætur kl. 6, það er kannski ástæðan fyrir því að ég man ekkert eftir því, ég var of þreytt.

Allavega. Ég reyni að gefa þeim hafragraut 1-2 sinnum í viku. Röskvu finnst hann viðbjóður bara með salti þótt Rakel mótmæli ekki en mér tekst að koma grautnum ofan í Röskvu með því að klæða grautinn í spariföt. Ég sýð haframjölið alltaf í bæði vatni og mjólk, mjólkin gerir hann miklu betri og vatnið kemur í veg fyrir að grauturinn brenni þegar ég stekk frá til að gera hundrað hluti á meðan grauturinn mallar. Of sker ég perur og epli út í og sýð með en stelpunum finnst eiginlega best að fá það ferskt ofan á. Kanill er alltaf góður með og auk þess meinhollur og oft fá þær sultu sem hægt er að fá án viðbætts sykur. Hafragrautur með sultu og kanil er æði!

Í gær var Röskva alveg glorhungruð þegar komið var undir hádegi og við á leiðinni á skautaæfingu og þá er alltaf gott að redda sér með graut. Ég skellti í graut sem hún sagði að væri sá besti hingað til. Uppskriftin er fyrir einn unga en það er auðvelt að stækka hana. Ég gerði grautinn aftur í morgun fyrir dæturnar og þær voru alsælar.

2015-11-01 10.44.27

1 dl haframjöl

1 dl mjólk

1/2 dl vatn

1 msk hnetusmjör

1 tsk kókosolía

örlítið salt

Áður en ég byrjaði á grautnum setti ég eina msk af chiafræjum og 3 msk af vatni í bolla og leyfði fræjunum að vera í bleyti á meðan grauturinn sauð. Fræin voru orðin að þessum fína hlaupchiagraut þegar hafragrauturinn var tilbúinn og þá blandaði ég þessu tvennu saman. Stelpunum finnst chiagrautur horbjóður en ég fel hann svona, í hafragrautnum. Ég hrærði einni tsk af sultu án viðbætts sykurs út ít (fæst í Bónus og er rándýr en ein krukka dugir alveg í margar hafragrautsskálar), skar banana ofan á, stráði kanil yfir og hellti að lokum rjóma yfir allt. Þetta er algjör bomba, mjög seðjandi og braðgóð. Röskva mokaði þessu upp í sig í gær og þær báðar í morgun.

Það hefur örugglega enginn skrifað svona mikið um hafragraut, en hey, matur er alltaf matur og matur er bæði skemmtilegur og merkilegur í mínum augum og ég legg mig fram í öllu sem geri í eldhúsinu. Þannig er það bara. Fáið ykkur graut.

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s