Hægeldað lambalæri

Lambalæri er málið, bara alltaf. Alveg á topp fimm listanum hjá mér, en ég hef líka lagt mig mikið fram við að læra að elda það eins og ég vil hafa það. Mér finnst best að hægelda það og þurrsteikja, ég komst að þeirri niðurstöðu eftir mikla upplýsingaöflun og nokkrar tilraunir. Ég skellti í læri með öllu í dag og bauð besta fólkinu. Það er auðvitað alveg óheyrilega mikið af góðu fólki í lífi mínu en besta fólkið fæ ég í mat annan hvern sunnudag og þá elítu skipa systkini mín, fallegustu, bestu og mestu, og viðhengi, mamma, sem er toppeintak af manneskju og ég er með alla daga af því að hún er svo skemmtileg, og svo amma eldgamla.

Lærið var keypt frosið daginn áður en ég ætlaði að hafa það og það fékk allan daginn til að þiðna og fram á næsta morgun. Ég hafði það bara í eldhúsvaskinum í sólarhring, ég er ekkert að vesenast með kjöt í kæli þegar ég er að fara að elda það daginn eftir, leyfi því bara að meyrna. Þetta væna stykki var 3,2 kíló sem dugði í matinn fyrir 8 og samt var afgangur sem ég mun nýta á morgun.

2015-11-08 11.35.09

Ég byrjaði á því að kveikja á ofninum og stillti hann á 120° með blæstri. Ef þið eruð ekki með blástursofn skulið þið stilla ofninn á 140°. Athugið að þessi hiti miðast við hægeldun. Svo skellti ég lærinu á bretti og þerraði með pappír. Ég skar niður tvo kínverska hvítlauka, örugglega 8-10 geirar, stakk með hníf með mjóu blaði hér og þar í lærið og tróð lauknum inn í. Ég setti nokkrar matskeiðar af ólífuolíu í skál, blandaði kryddum saman við og nuddaði svo kryddblöndunni inn í lærið svo að það varð þakið blöndunni. Þið sjáið kryddin á myndinni en þau eru ekkert heilög.

Ég setti lærið á grind og í miðjan ofnin. Fyrir neðan hafði ég ofnskúffu og í henni einn niðurnseiddan lauk, hálfan rauðlauk og einn heilan hvítlauk. Ekkert vatn því að ég vildi þurrsteikja lærið. Ef þið setjið vatn í ofnskúffuna eruð þið að gufusjóða lærið, sem er allt í góðu en mér finnst mun betra að þurrsteikja. Á meðan lærið eldast vökvast það með soðinu, fitan efst bráðnar og smýgur inn í kjötið og svo lekur neðan af lærinu og í ofnskúffuna og það nýti ég mér í sósu.

2015-11-08 16.55.21

Ég steikti lærið við sama hita frá 12-16.30. Ég lét það svo standa inni í ofni til kl. 18. Það þarf ekki að standa svona lengi, 15-20 mínútur duga alveg, og það þarf ekki að vera inni í ofni, það bara hentaði mér núna. En látið kjötið alltaf jafna sig, það breytir öllu að það fái að standa í einhvern tíma áður en það er skorið. Ég þurfti varla að skera kjötið, það datt af beininu, en var samt dásamlega safaríkt og braðmikið.

Til þess að búa til sósu úr soðinu sauð ég vatn og hellti í ofnskúffuna og lét standa í kannski 5 mínútur. Ég vildi gera mikið af sósu, sósukonan sem ég er, og litla systir,  þannig að ég hellti alveg nálægt lítra í skúffuna. Sjóðandi vatnið mýkir laukinn og það verður auðveldara að losa skófirnar. Svo setti ég sigti á pott og hellti soðinu í og marði laukinn í sigtinu til að ná nú öllu bragðinu. Yfirleitt dugir þetta bara í sósuna, soðið er svo bragðmikið. Ég set stundum smá matreiðslurjóma en það þarf ekki. Skófirnar lita sósuna svo að hún verður fallega brún á litinn, það þarf engan sósulit í þessa sósu. Þegar ég var að elda sósuna áðan missti ég takið á ofnskúffunni og mestallt soðið fór í vaskinn, í bókstaflegri merkingu. Aldrei þessu vant þurfti ég að bragðbæta soðið, ég setti salt og rósmarín, rifsberjasultu og rifinn parmesan og sósan varð æðisleg á endanum.

Ég er svo gamaldags að ég vil bara hafa sultu og baunir og kartöflur með. Eða gulrætur þar sem ég sleppi kartöflum þessa dagana. Eins og mér fannst soðnar gulrætur mikill viðbjóður þegar ég var lítil þá finnst mér þær svakalega góðar núna. Reyndar þarf ég alltaf að poppa hlutina aðeins upp svo að ég fæ mér cillísultu með sem ég gerði sjálf. Við mamma vitum ekkert betra. Ég ætla að gefa henni lítra af sultu í jólagjöf, það er það sem hana langar í.

Prófið að þurrsteikja lærið, það er geggjað. Eða horfið bara á þessa mynd sem er verulega úr fókus.

2015-11-08 18.18.30

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s