Sælgætismolar – rocky road

Sælgæti búið til úr sælgæti er málið. Hef áður lýst yfir litlum áhuga mínum á smákökum en mér finnst gaman að búa til eitthvað svipað þessu. Ég sá uppskrift á Ljúfmeti og lekkerheit (sem ég hef bara minnst sirka 100 sinnum á í eigin bloggfærslum og nei, ég þekki þessa konu ekki neitt) að molum sem heita Rocky Road fyrir einhverjum árum og prófaði og finnst þeir æði. Þeir eru einfaldir í framkvæmd og ótrúlega góðir og hægt að leika sér með innihaldið. Í upprunalegu uppskriftinni eru pistasíukjarnar og 2015-12-15 19.27.44salthnetur en mér finnst pistasíur ekki góðar svo ég nota aðra tegund af hnetum eða meira af salthnetum. Ég nota svo alltaf suðusúkkulaði frá Heima. Það er ódýrast og kemur alltaf vel út, en auðvitað má kaupa eitthvað meira gæðasúkkulaði. Uppskriftin hér að neðan er í grunninn uppskriftin inni á Ljúfmeti en með mínu tvisti, tvistið er svo ólíkt í hvert skipti sem ég geri góðgætið.

600 g dökkt súkkulaði að eigin vali

1 poki Dumle karamellur

2 lúkur af litlum sykurpúðum (eða stórum klipptum niður) eða kassi af Lindubuffum

150-200 g salthnetur eða blanda af þeim og öðrum hnetum eða þeim og pistasíukjörnum

2015-12-15 18.05.40Ég hef hvergi fengið sykurpúða undanfarið svo ég sleppti þeim. Eða ég leitaði í Bónus og Rangá og nennti ekki á fleiri staði. Ég keypti bara kassa af Lindubuffum. Ég átti líka aðeins salthnetur svo ég notaði engar aðrar hnetur en það er ekkert síðra. Ég tímdi líka bara að kaupa 1 poka af Dumle karamellum þótt það séu 2 pokar í uppskriftinni inni á Ljúfmeti, með Lindubuffum er einn poki alveg nóg.

Bræðið súkkulaðið yfir vatnsbaði og látið kólna smá. Skerið á meðan karamellurnar í tvennt og Lindubuffin í bita og setjið í skál. Hellið salthnetunum út í skálina og súkkulaðinu þar yfir og blandið vel saman.

Setjið smjörpappír í stórt mót og hellið blöndunni í það. Kælið góða stund og skellið svo á bretti þegar blandan er storknuð og skerið í bita. Hrikalega gott.

 

 

 

Marengstoppar

Ég held að flestir hafi prófað að gera marengstoppa eða kurltoppa. Það varð eitthvað kurltoppaæði á tíunda áratugnum og lakkrískurl seldist upp fyrir öll jól. Ég skil það vel. Ég er alls engin smákökuæta og píni bara ofan í mig örfáar fyrir ömmu eldgömlu sem bakar margar sortir fyrir hver jól. Brosi og lýsi yfir velþóknun minni en finnst þetta ekkert gott. Bara eins og eitthvað ótrúlega plein kex. Og ömmusmákökur eru samt auðvitað bestar. En ég vil eitthvað meira djúsí. Sælgæti búið til úr sælgæti (athugið aðra færslu um rocky road sælgætismola) eða marengstoppa. Þar eru möguleikarnir endalausir, þvílík gleði.

Þegar ég var 12 ára (á tíunda áratugnum) gerðum við bekkurinn uppskriftabók og þar kom ein með uppskrift að kurltoppum. Uppskriftina fékk hún í Morgunblaðinu en þar var kona sem vann einhverja uppskriftakeppni með þessum unaði, þ.e. kurltoppum. Síðan hefur fjölskyldan mín gert kurltoppa um hver jól, fyrst við mamma og co. og núna ég og co., eftir að ég flutti að heiman og lét mömmu um að gera síns eigins kurltoppa.

Unga yngri finnst hins vegar lakkrístopparnir ekkert mjög góðir, ég er ekki viss um að hún sé dóttir mín. Og reyndar fannst unga eldri þeir aldrei neitt spes. Örugglega heldur ekki dóttir mín. En fyrir tveimur árum fór ég að leika mér að því að breyta innihaldinu. Og það var stórt skref. Því að það eru bara svona tvö ár síðan ég fór eitthvað að leeeeika mér í bakstri, það voru einu skiptin þar sem ég leit ekki af uppskriftinni, ég sem nota nær aldrei uppskrift þegar ég elda. En svona tekur maður áhættur og lifir á brúninni. Og ég gerði nokkrar tegundir af marengstoppum þá aðventu.

Ég verða að mæla með að hafa suðusúkkulaði og sykurpúða. Og nota hvítan sykur í stað púðursykurs. Það er klikkað gott. Og svo hef ég gert með karamellukurli. Mjög gott. Og núna gerðum við dæturnar, já, ég hef ekki afneitað þeim enn vegna kurltoppanna, marengstoppa með rjómasúkkulaði með karamellukurli og sjávarsalti OG karamellukurli (í poka). Og notuðum hvítan sykur. Það sá í hvítuna í augunum á börnum þegar þau borðuðu toppana, svo mikil var sykur- og nautnavíman.

3 eggjahvítur

200 g púðursykur/hvítur sykur

Þetta eru marengstopparnir sjálfir. Þegar búið er að stífþeyta er bara að missa sig í gleðinni og fjölbreytninni:

130 g súkkulaði, t.d. suðusúkkulaði eða rjómasúkkulaði með karamellu og sjávarsalti eða eitthvað annað fáránlega sniðugt

1-2 pokar lakkrískurl eða karamellukurl

t.d. lúka af  litlum sykurpúðum

Blandið sælgætinu varlega saman við með sleikju. Látið á plötu með teskeið. Bakið í miðjum ofni við 150° í 20 mín. EÐA eins og ég geri og mér finnst þeir verða akkúrat mátulegir þannig, við 130° með blæstri í 15 mín.

Namm. Namm, namm.

 

Svírðilega einföld og góð kjúklingalæri

Ég er ekkert rosalega hrifin af kjúklingi, nema þeim sem pabbi eldar. Ég þreytist ekki á því að mæra hann á þessu bloggi, hann er einstaklega góður kokkur. Þegar við tölum saman er hann alltaf með eitthvað í pottinum eða í ofninum, þótt hann búi einn eldar hann oft og leikur sér að því að búa til nýja rétti. Svo tölum við um þessa rétti og um daginn sagði ég honum hvað hann væri mér mikill innblástur í eldamennskunni og bað hann að skrifa eitthvað af þessum réttum sínum niður. Það verður fjársjóður sem ég mun varðveita vel.

Ég hefði aldrei trúað því hversu gott er að hafa tómata og mango chutney saman en það kenndi pabbi mér í eitthvert af skiptunum sem hann var í heimsókn hérna. Hann kemur nokkra daga í einu og er í eldhúsinu allan tímann. Ég elska það. Þetta er eins og að fylgjast með atvinnumanni.

Alla vega hef ég þróað minn eiginn fáránlega auðvelda kjúklingarétt út frá hugmyndum pabba. Ég hef aldrei séð hann elda bara kjúklingabringur, eins og við gerum svo mikið á Íslandi. Bæði finnst honum það of dýr matur og ekki nógu góður, hann vill fá safann úr kjúklingnum. Hann kaupir alltaf heila kjúklinga og hlutar þá niður sjálfur og einn daginn mun ég gera það. Þangað til kaupi ég bara læri, þau klikka aldrei, eru ódýr og alltaf safarík.

Við vorum 4 að borða og það eru 3 kjúklingalæri í afgang. Ég mundi miða við 2-3 læri á fullorðinn og 1-2 á barn, fer eftir aldri þeirra. En svo er alltaf í lagi að eiga smá afganga og skella í tortillu daginn eftir.

1 kg kjúklingalæri

2 dósir af niðursoðnum tómötum

1/2 krukka mango chutney (srika 170-200 g)

1 laukur

1 kínverskur hvítlaukur eða 3-4 geirar

2-3 tsk salt

2 tsk cumin

2 tsk kjúklingakrydd

 

Skerið lauk og hvítlauk í sneiðar og hendið í ofnfast mót. Ég er svo heppin að eiga dásamlegan leirpott eða leirfat með loki sem pabbi gaf mér og Hrund í brúðkaupsgjöf, það verður allt betra í því, en það er í góðu að nota eldfast mót. Hellið tómötum og mango chutney út í, þar á eftir kryddum og blandið vel saman með skeið. Smakkið sósuna til, það er snilld að gera það áður en maður setur kjúklingalærin á bólakaf ofan í sósuna.

Mér finnst gott að láta kjúklingalæri malla, þau verða aldrei þurr og áðan voru þau svo meir að kjötið datt af beininu. Ég gleymdi að taka þau úr frysti í gær, sem ég passa mig annars að gera, svo að þau fór frosin inn í ofn. Ég eldaði þau svo í tveimur hollum þar sem við vorum á flandri, í rúman klukkutíma í einu. Ég mæli því að leyfa þeim að malla í góða 2 klukktíma á 130° með blæstri. Ef þið hafið ekki tíma það er í góðu að elda þau við 170-180° á blæstri í klukkustund. Stelpurnar höfðu hrísgrjón og guacamole með en ég bara guacamole. Þið finnið uppskrift að því hér á síðunni.

Lyktin var svo góð og allir svo svangir að við bara réðumst á matinn og ég gleymdi að taka mynd, tók eina aumingjalega í miðri máltíð sem ég læt samt fylgja með. Sósan ofan á er var vel elduð, hún er samt góð þannig og er ekki svona brennd eins og hún lítur út fyrir að vera og mér finnst það bara betra. En ef þið viljið losna við það er gott að hafa álpappír yfir mótinu. Endilega prófið réttinn og segið mér hvað ykkur finnst.

2015-12-06 19.55.22

Enter a caption