Marengstoppar

Ég held að flestir hafi prófað að gera marengstoppa eða kurltoppa. Það varð eitthvað kurltoppaæði á tíunda áratugnum og lakkrískurl seldist upp fyrir öll jól. Ég skil það vel. Ég er alls engin smákökuæta og píni bara ofan í mig örfáar fyrir ömmu eldgömlu sem bakar margar sortir fyrir hver jól. Brosi og lýsi yfir velþóknun minni en finnst þetta ekkert gott. Bara eins og eitthvað ótrúlega plein kex. Og ömmusmákökur eru samt auðvitað bestar. En ég vil eitthvað meira djúsí. Sælgæti búið til úr sælgæti (athugið aðra færslu um rocky road sælgætismola) eða marengstoppa. Þar eru möguleikarnir endalausir, þvílík gleði.

Þegar ég var 12 ára (á tíunda áratugnum) gerðum við bekkurinn uppskriftabók og þar kom ein með uppskrift að kurltoppum. Uppskriftina fékk hún í Morgunblaðinu en þar var kona sem vann einhverja uppskriftakeppni með þessum unaði, þ.e. kurltoppum. Síðan hefur fjölskyldan mín gert kurltoppa um hver jól, fyrst við mamma og co. og núna ég og co., eftir að ég flutti að heiman og lét mömmu um að gera síns eigins kurltoppa.

Unga yngri finnst hins vegar lakkrístopparnir ekkert mjög góðir, ég er ekki viss um að hún sé dóttir mín. Og reyndar fannst unga eldri þeir aldrei neitt spes. Örugglega heldur ekki dóttir mín. En fyrir tveimur árum fór ég að leika mér að því að breyta innihaldinu. Og það var stórt skref. Því að það eru bara svona tvö ár síðan ég fór eitthvað að leeeeika mér í bakstri, það voru einu skiptin þar sem ég leit ekki af uppskriftinni, ég sem nota nær aldrei uppskrift þegar ég elda. En svona tekur maður áhættur og lifir á brúninni. Og ég gerði nokkrar tegundir af marengstoppum þá aðventu.

Ég verða að mæla með að hafa suðusúkkulaði og sykurpúða. Og nota hvítan sykur í stað púðursykurs. Það er klikkað gott. Og svo hef ég gert með karamellukurli. Mjög gott. Og núna gerðum við dæturnar, já, ég hef ekki afneitað þeim enn vegna kurltoppanna, marengstoppa með rjómasúkkulaði með karamellukurli og sjávarsalti OG karamellukurli (í poka). Og notuðum hvítan sykur. Það sá í hvítuna í augunum á börnum þegar þau borðuðu toppana, svo mikil var sykur- og nautnavíman.

3 eggjahvítur

200 g púðursykur/hvítur sykur

Þetta eru marengstopparnir sjálfir. Þegar búið er að stífþeyta er bara að missa sig í gleðinni og fjölbreytninni:

130 g súkkulaði, t.d. suðusúkkulaði eða rjómasúkkulaði með karamellu og sjávarsalti eða eitthvað annað fáránlega sniðugt

1-2 pokar lakkrískurl eða karamellukurl

t.d. lúka af  litlum sykurpúðum

Blandið sælgætinu varlega saman við með sleikju. Látið á plötu með teskeið. Bakið í miðjum ofni við 150° í 20 mín. EÐA eins og ég geri og mér finnst þeir verða akkúrat mátulegir þannig, við 130° með blæstri í 15 mín.

Namm. Namm, namm.

 

Leave a comment