Hveitilausar ofurpönnukökur

Í dseember tók ég mér pásu frá því að takmarka hveiti, kartöflur, pasta og hrísgrjón í fæðunni. Reyndar er ég orðin svo vön því að sneiða hjá því að ég gerði það ósjálfrátt en ég naut þess sko að borða laufabrauð og brúnaðar kartöflur, rjúkandi pasta og ristað brauð og kakó á aðventunni.

Núna í byrjun janúar fann ég alveg hvað ég var tilbúin að halda mínum lífsstíl áfram, því að þetta er lífsstíll, ekki megrunaraðferð. Mér líður betur í kroppnum þannig en það er meiri fyrirhöfn, það er bara svoleiðis, en það er þess virði.

Ég skellti í pönnukökur handa stelpunum mínum um daginn og gerði sérdeig fyrir mig. Reyndar hefði ég ekkert þurft þess, sérstaklega litla dýrinu mínu fannst mínar ekkert síðri, man það næst. Ég ákvað að prófa eitthvað nýtt og vildi hafa pönnukökurnar mjög næringarríkar og seðjandi og það tókst! Ég verð svoleiðis pakksödd af einni til tveimur pönnsum og er södd lengi. Ég steikti mér þrjár pönnukökur þetta kvöld, borðaði tvær í kvöldmat og svo eina kalda morguninn eftir. Dásamlega gott. Ég setti restina af deiginu í box inn í ísskáp og steikti mér aftur pönnuköku í morgun. Tær snilld. Næst mun ég líklega helminga uppskriftina ef ég er bara að gera fyrir mig, þetta er stór uppskrift, en deigið geymist samt alveg sirka 4-5 daga í ísskáp.

Er þetta ekki fallegt? Ég elska fallegan mat.

2016-01-06 18.38.00

Uppskriftin er eftirfarandi:

chiagrautur úr 2 msk af chiafræjum og vatni

2 vel þroskaðir bananar

2 lárperur

2 egg

2 dl kókoshveiti

2 msk kókosolía

2 tsk kakóduft

2 tsk vínsteinslyftiduft

1 dl mjólk

Það er auðvitað stílbrot að hafa 1 dl af mjólk en tvennt af öllu öðru. Ég óskaði þess að geta notað 2 dl en þá hefði deigið orðið að drullumalli.

Byrjið á því að setja chiafræin í skál með vatni. Látið vatnið rétt fljóta yfir, kannski 1/2-1 dl af vatni, blandið og látið standa á meðan þið setjið hin hráefnin í skál, þetta verður að einskonar hlaupi á meðan. Ég stappaði svo allt saman í skálinni og blandaði vel.

Deigið er mjög ólíkt venjulegu hveitideigi, það á að vera þykkt eins og kaldur hafragrautur og næstum hægt að hnoða það. Setjið olíu á pönnu og passið að hafa ekki of háan hita. Ég setti eina kúfaða matskeiða af deiginu á pönnuna og flatti það út með spaða. Það er mjög auðvelt að eiga við deigið en það tollir auðvitað ekki eins vel saman og venjuleg soppa. Það gekk þó mjög vel að steikja og pönnukakan datt ekkert í sundur, ég notaði stóran spaða sem pönnukakan rúmaðist alveg á þegar ég smeygði honum undir hana til að snúa pönnsunni á pönnunni. Steikið í sirka 45 sekúndur til 1 mínútu á hvorri hlið. Það þarf ekkert að baka þetta í tætlur, meira að hita í gegn og fá gullbrúnan lit á pönnsuna.

Pönnukakan til vinstri var alveg eins og ég vildi hafa hana, sú til hægri pínu brennd en ég át hana samt upp til agna.

2016-01-06 19.25.33

Ég prófaði bæði hnetusmjör og sultu ofan á og ost. Það er mjög erfitt að ætla að smyrja pönnsuna með smjöri en svo er pottþétt líka gott að hafa sýróp. Hnetusmjörið og sultan fær mitt atkvæði, þetta er bara það besta sem ég hef borðið lengi. Ein svona í morgunamat og þið eruð góð til hádegis, alla vega ég. Tekur enga stund að steikja eina pönnsu og líkaminn malar af vellíðan á eftir.

Endilega segið mér ef þið prófið að hræra í svona og segið mér hvað þið fáið ykkur ofan á.

2016-01-06 19.20.45

2 thoughts on “Hveitilausar ofurpönnukökur

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s