Spænskur saltfisksréttur

Ég bókstaflega elska þennan rétt en hef mjög sjaldan eldað hann. Líklega bara einu sinni áður, fyrir 8 árum á 25 ára afmælinu mínu. Mamma hefur nokkrum sinnum gert hann og það var hún sem kynnti mig fyrir honum, uppskriftina fékk hún hjá samstarfskonu fyrir mörgum árum. Eitt sinn þegar mamma eldaði þennan rétt fyrir vinkonur sínar sló hann svo í gegn að ein þeirra gat ekki slitið sig frá fisknum og þurfti að gista hjá mömmu til að geta borðað hann í morgunmat daginn eftir.

Eftir að hafa eldað hann núna um helgina er ég með nokkrar tillögur að breytingum og ég hlakka til að gera réttinn aftur, það verða sannarlega ekki 8 ár á milli núna.

ólívolía

1,5 kg saltfiskur

sirka 15 hvítlauksrif

hveiti til að velta fisknum upp úr

1 kg kartöflur, sætar eða venjulegar

2 rauðar og 2 grænar paprikur

3 vænir laukar

2 fræhreinsuð chillí

3 msk balsamedik

2 tsk dijonsinnep

2 dósir hakkaðir tómatar

grænar ólívur

200 g búraostur

Ég vil byrja á því að segja að mér finnst algjör óþarfi að hafa kartöflur. Ég hafði sætar kartöflur núna en þar sem ég var að elda heima hjá mömmu og á í haturssambandi við ofninn hennar þá suðu kartöflurnar ekkert og við enduðum á því að taka þær úr þegar allt annað í réttinum var tilbúið. Og mér fannst rétturinn bara betri þannig en með kartöflum, eins og ég hef alltaf fengið hann áður.

Mér finnst líka aðeins of mikill vökvi og of lítill fiskur. Ég mun alla vega hafa meiri fisk næst og þá er vökvinn örugglega mátulegur. Ég hafði réttinn í stóru eldföstu móti en mun næst gera hann í ofnskúffu, það flæðir óhjákvæmilega upp úr mótinu sem er bara vesen. Ég notaði líka meira balsamedik og sinnep en er í uppskriftinni, smakkaði gumsið bara til og þið getið gert það.

Þá að eldamennskunni. Það tekur alveg góða stund að gera réttinn, örugglega 1,5-2 tíma, en það er bara gaman með góðri tónlist og rauðvíni á kantinum. Tekur styttri tíma ef þið eigið matvinnsluvél fyrir laukinn og paprikuna.  Ég ætla að setja upp fyrir ykkur skipulagið sem ég notaði. Það verður að steikja fiskinn og gumsið sem fylgir í hollum nema þið séuð bara með 1000 l pott á hlóðum eða eitthvað:

Roðflettið saltfiskinn og skerið í bita. Saxið hvítlauksrifin og hafið tilbúin í skál. Hellið slatta af hveiti í súpudisk til að velta fiskinum upp úr. Ef þið hafið karöflur er best að snöggsjóða þær, alla vega þessar venjulegu. Skerið soðnu kartöflurnar í sneiðar og þá getið þið byrjað að steikja. Setjið olíu á pönnuna og hluta af hvítlauknum, passið að laukurinn brenni ekki. Veltið fiskbitunum upp úr hveiti og steikið á pönnunni þar til þeir hafa fengið á sig gullbrúnan lit.

Ég skipti bitunum í tvær hrúgur og þegar ég var búin að steikja fyrri hrúguna og raða þeim í mótið raðaði ég kartöfluskífum ofan á. Steikti svo seinni fiskhrúguna og raðaði ofan á kartöflurnar og raðaði restinni af kartöflunum þar  ofan á, sem sagt fjögur lög.

Þá er það gumsið. Ég steikti það líka í hollum því að það er ekki fræðilegur möguleiki að koma því öllu á eina pönnu. Ég saxaði lauk og paprikur og steikti fyrst allan laukinn upp úr smjöri (ég varð, það er svo miklu betra þegar maður steikir lauk) og olíu og hellti honum svo í stóra skál. Því næst steikti ég allar paprikunar og blandaði ediki og sinnepi saman við, það skiptir ekki máli á hvaða stigi þessarar steikingar þið gerið það. Ég hellti paprikunum út í skálina með lauknum og hellti svo niðursoðnum tómötunum á pönnu, setti chillíið út í, hleypti suðunni upp og hellti þessu líka í skálina. Þar blandaði ég öllu vel saman með sleif og hellti því svo yfir fiskinn og kartöflurnar.

2016-01-17 17.50.26

Skerið því næst ólívurnar í sneiðar og rífið ostinn. Dreifið ólívunum yfir gumsið og ostinum þar yfir og eldið við 200 g í 25 mín.

2016-01-17 17.58.01.jpg

Og njótið! Ó, munið að njóta.

2016-01-17 18.38.56

2 thoughts on “Spænskur saltfisksréttur

Leave a comment