Bjórkjúklingur í ofni

Ég á í ástar- og haturssambandi við kjúkling. Hann getur verið svo góður og líka svo vondur. Ég var grænmetisæta í nokkur ár og mér fannst alveg hrikalega erfitt að elda kjúkling þegar ég fór að borða kjöt aftur, fannst hann ógeð. En pabbi hefur sýnt mér réttu taktana, það er svo gaman að fylgjast með honum matreiða kjúkling og ég veit ekki betri mat en kjúklingaréttina hans. Hann hefur nú samt aldrei gert bjórkjúlla, latinokallinn stússar ekkert í svoleiðis, en þið þekkið þessa eldunaraðferð örugglega flest.

Ég átti afmæli á páskunum í fyrra, eins og svo oft þar sem ég er fædd á skírdag, og var svo lánsöm að vera með stórfjölskyldunni í bústað. Þar grillaði ég tvo bjórkúlla sem voru svaðalega safaríkir og góðir. Ég læt mig dreyma um gott grill úti á svölum heima en þangað til sá draumur rætist geri ég bara bjórkúlla í ofni. Súpereinfalt og gott. Þessi kjúklingur var einstaklega góður, enda frá Litlu gulu hænunni, tengdamamma mín var svo yndisleg að færa mér kjúkling frá þeim í frystikistuna mína.

 

 • Heill kjúklingur (ég var með 1,2 kíló)2016-01-24 12.58.45
 • 1 lítill bjór
 • sítróna
 • laukur
 • hvítlaukur
 • rótargrænmeti að eigin vali
 • krydd eftir smekk
 • ólívuolía

 

 

 

Ég skar niður tvo rauðlauka, einn kínverskan hvítlauk, heila poka af gulrótum og hálfa sæta kartöflu og setti í botninn á leirfatinu mínu góðu. Ég hellti smá ólívuolíu yfir og kryddaði með salti og pipar og rósmarín.

Ég bjó svo til kryddmauk í lítilli skál, var með salt, pipar, rósmarín, kjúklingakrydd og steikarkrydd. Setti nokkra dropa af ólívuolíu út í og smurði kjúllann vel að innan og utan með blöndunni. Ég setti svo hvítlauksrif og tvo sítrónubáta inn í bossann á honum.

Ég nota bjór fyrir svona kjúlla en það má líka nota til dæmis eplasafa. Ég skar ofan af lítilli dós af bjór og setti hvítlauksrif og sítrónu í botninn og fyllti svo dósina með bjór. Með hjálp spúsu minnar kom ég svo kjúklingum fyrir ofan á dósinnni í leirpottinum. Þið getið notað leggina til stuðnings og komið grænmetinu fyrir í kring, þá stendur kjúklingurinn alveg.

 

 

Ég undirbjó kjúklinginn í hádeginu og skellti mér svo í sund í hagléli og roki, dásamlegt. Spúsan hitaði ofninn og setti kjúklinginn svo inn í hann einum og hálfum tíma áður en við ætluðum að borða. Kjúklingur þarf 45-60 mín. á kílóið í 170°C heitum ofni. Ég nota alltaf kjöthitamæli til að athuga hvort hann er gegnsteikur, kjarnhitinn þarf að vera 70°C.

Safinn lak úr kjúklingnum þegar við skárum hann, hann eldast fullkomlega með þessum hætti. Við höfðum svo rótargrænmetið með og soðið sem safnaðist í botninn og auðvitað guacamole, það er ómissandi.

 

Það var svo mátulega mikið í afgang í kvöldmat einu sinni enn svo ég ætla að steikja restina á pönnu á eftir og vefja inn í heilhveititortillu með grænmeti, salsa og sýrðum rjóma. Namm.

Eggjakaka með allskonar

Egg eru auðvitað best í heimi, algjör snilldarfæða. Ómissandi í bakstur og gott carbonara, æðislegur morgunmatur og milimál, bara hvað sem er. Eggjakökur eru því augljóslega snilld líka. Ég hafði eggjöku í kvöldmat í gær, eldaði hana í þetta sinn í ofni í sílikonformi, mun aldrei gera það öðruvísi hér eftir:

Eggjakakan sjálf, fyrir 62016-01-21 18.35.53

 • 6 egg
 • 2 msk sýrður rjómi
 • 2 msk kotasæla
 • rifinn parmesan

 

Fylling

Hér er um að gera að nota hvað sem hugurinn girnist og endilega nýta afganga af  t.d. kjúkling, hakki eða nota skinku, pylsur, beikon. Það er líka hægt að setja með soðnar kartöflur. Ég sleppi oft öllu kjötmeti og nota alltaf bara það grænmeti sem er til í ísskápnum. Ég notaði í þetta skiptið:

 • 1/2 rauðlauk
 • 1 kínverskan hvítlauk, sirka 3-4 hvítlauksrif
 • 1/2 papriku
 • bréf af kalkúnaskinku
 • tvær afgangspylsur
 • nokkrar lúkur af spínati

 

Hrærið saman egg, kotasælu og sýrðan rjóma, rífið parmesan út í og kryddið með kryddum sem ykkur finnst góð. Saxið niður grænmeti og kjöt og steikið á pönnu í olíu og jafnvel smá smjöri þar til allt hefur mýkst. Hellið fyllingunni í botninn á eldföstu móti og ef ykkur finnst fetaostur góður mundi ég skelli honum ofan á, áður en þið hellið eggjunum yfir.

 

Hellið því næst eggjahrærunni yfir allt saman og rífið ost yfir. Ég skar líka niður tómata og dreifði yfir ostinn. Bakið í ofni við 200C° í 20 mín. Ég borðaði mína eggjaköku með spínati, gúrku og tómatpestói. Hrikalega gott. Kakan rann vel ofan í alla fjölskyldumeðlimi (tvö börn, tveir fullorðnir) og svo gaf ég mömmu afgang fyrir hana og bróður minn. Ekki slæmt.

2016-01-21 19.34.35

 

Sítrónukaka með hnetusmjörskremi

Heima hjá mér eru sítrónukökur í algjöru uppáhaldi. Ég á eina dásamlega kökubók með uppskriftum úr Gestgjafanum og nota hana óspart og þar fann ég góða uppskrift að sítrónuköku sem ég nota oft. Ég mæli líka með sítrónukökunni sem er að finna á blogginu Ljúfmeti og lekkerheit og svo þessari að neðan sem ég fann inni á gott í matinn. Alveg hreint unaðslega góð, sérstaklega ef þið fílið hnetusmjör. Ég er ekki mikil rjómakona en mér finnst möst að þeyta rjóma með sýrópi eins og höfundur stingur upp, það er alveg punkturinn yfir i-ið. Hérna komist þið beint inn á uppskriftina en ég skellti henni líka inn hér ásamt mynd af síðustu kökunni sem ég bakaði: http://www.gottimatinn.is/matarblog/erna-sverrisdottir/laxabitar-undir-blomkalsostathaki-og-mjuk-sitronukaka-med-hnetusmjorskremi/193

Svo vil ég bæta við, af því að ég var lengi að verða flink að baka, ég hef eldað í mörg ár en bakað í örfá, að það verður að láta svona formköku kólna alveg áður en maður tekur hana úr forminu, þá helst hún þétt og í heilu lagi. Ég nota alltaf sílikonform úr Kokku, mér finnst það langbestu sílikonformin, og þetta gengur ef ég kæli kökuna vel. Það gildir líklega annað ef þið notið álform og setjið smjörpappír í.

Sítrónukaka með hentusmjörskremi

3 egg

2 ½ dl sykur

3 ½ dl hveiti

1 tsk lyftiduft

150 g smjör, brætt og kælt

fínrifinn börkur af einni sítrónu

 

Hnetusmjörskrem:

 

1 ¼ dl flórsykur

1 ¼ dl hnetusmjör

40 g smjör

½ tsk vanilludropar

½ dl rjómi

 

Meðlæti, má sleppa:

þeyttur rjómi með smá sýrópi

 

1.     Stillið ofninn á 175°.

2.     Hrærið saman eggjum og sykri þar til létt og ljóst. Setjið hin hráefnin saman við. Hrærið stutta stund. Setjið í formkökuform klætt bökunarpappír og bakið neðarlega í ofninum í u.þ.b. 30-40 mínútur. Látið kökuna kólna aðeins áður en þið setjið kremið á.

Krem, aðferð: 
Hrærið saman fyrstu fjórum hráefnunum sem eiga að fara í kremið þar til mjúkt og án kekkja. Setjið rjómann saman við og hrærið örstutt. Smyrjið ofan á kökuna. Gott að bera fram með þeyttum rjóma sem örlítið síróp hefur verið sett saman við.

2016-01-17 18.31.08

Spænskur saltfisksréttur

Ég bókstaflega elska þennan rétt en hef mjög sjaldan eldað hann. Líklega bara einu sinni áður, fyrir 8 árum á 25 ára afmælinu mínu. Mamma hefur nokkrum sinnum gert hann og það var hún sem kynnti mig fyrir honum, uppskriftina fékk hún hjá samstarfskonu fyrir mörgum árum. Eitt sinn þegar mamma eldaði þennan rétt fyrir vinkonur sínar sló hann svo í gegn að ein þeirra gat ekki slitið sig frá fisknum og þurfti að gista hjá mömmu til að geta borðað hann í morgunmat daginn eftir.

Eftir að hafa eldað hann núna um helgina er ég með nokkrar tillögur að breytingum og ég hlakka til að gera réttinn aftur, það verða sannarlega ekki 8 ár á milli núna.

ólívolía

1,5 kg saltfiskur

sirka 15 hvítlauksrif

hveiti til að velta fisknum upp úr

1 kg kartöflur, sætar eða venjulegar

2 rauðar og 2 grænar paprikur

3 vænir laukar

2 fræhreinsuð chillí

3 msk balsamedik

2 tsk dijonsinnep

2 dósir hakkaðir tómatar

grænar ólívur

200 g búraostur

Ég vil byrja á því að segja að mér finnst algjör óþarfi að hafa kartöflur. Ég hafði sætar kartöflur núna en þar sem ég var að elda heima hjá mömmu og á í haturssambandi við ofninn hennar þá suðu kartöflurnar ekkert og við enduðum á því að taka þær úr þegar allt annað í réttinum var tilbúið. Og mér fannst rétturinn bara betri þannig en með kartöflum, eins og ég hef alltaf fengið hann áður.

Mér finnst líka aðeins of mikill vökvi og of lítill fiskur. Ég mun alla vega hafa meiri fisk næst og þá er vökvinn örugglega mátulegur. Ég hafði réttinn í stóru eldföstu móti en mun næst gera hann í ofnskúffu, það flæðir óhjákvæmilega upp úr mótinu sem er bara vesen. Ég notaði líka meira balsamedik og sinnep en er í uppskriftinni, smakkaði gumsið bara til og þið getið gert það.

Þá að eldamennskunni. Það tekur alveg góða stund að gera réttinn, örugglega 1,5-2 tíma, en það er bara gaman með góðri tónlist og rauðvíni á kantinum. Tekur styttri tíma ef þið eigið matvinnsluvél fyrir laukinn og paprikuna.  Ég ætla að setja upp fyrir ykkur skipulagið sem ég notaði. Það verður að steikja fiskinn og gumsið sem fylgir í hollum nema þið séuð bara með 1000 l pott á hlóðum eða eitthvað:

Roðflettið saltfiskinn og skerið í bita. Saxið hvítlauksrifin og hafið tilbúin í skál. Hellið slatta af hveiti í súpudisk til að velta fiskinum upp úr. Ef þið hafið karöflur er best að snöggsjóða þær, alla vega þessar venjulegu. Skerið soðnu kartöflurnar í sneiðar og þá getið þið byrjað að steikja. Setjið olíu á pönnuna og hluta af hvítlauknum, passið að laukurinn brenni ekki. Veltið fiskbitunum upp úr hveiti og steikið á pönnunni þar til þeir hafa fengið á sig gullbrúnan lit.

Ég skipti bitunum í tvær hrúgur og þegar ég var búin að steikja fyrri hrúguna og raða þeim í mótið raðaði ég kartöfluskífum ofan á. Steikti svo seinni fiskhrúguna og raðaði ofan á kartöflurnar og raðaði restinni af kartöflunum þar  ofan á, sem sagt fjögur lög.

Þá er það gumsið. Ég steikti það líka í hollum því að það er ekki fræðilegur möguleiki að koma því öllu á eina pönnu. Ég saxaði lauk og paprikur og steikti fyrst allan laukinn upp úr smjöri (ég varð, það er svo miklu betra þegar maður steikir lauk) og olíu og hellti honum svo í stóra skál. Því næst steikti ég allar paprikunar og blandaði ediki og sinnepi saman við, það skiptir ekki máli á hvaða stigi þessarar steikingar þið gerið það. Ég hellti paprikunum út í skálina með lauknum og hellti svo niðursoðnum tómötunum á pönnu, setti chillíið út í, hleypti suðunni upp og hellti þessu líka í skálina. Þar blandaði ég öllu vel saman með sleif og hellti því svo yfir fiskinn og kartöflurnar.

2016-01-17 17.50.26

Skerið því næst ólívurnar í sneiðar og rífið ostinn. Dreifið ólívunum yfir gumsið og ostinum þar yfir og eldið við 200 g í 25 mín.

2016-01-17 17.58.01.jpg

Og njótið! Ó, munið að njóta.

2016-01-17 18.38.56

Kjúklingasúpa með kókosmjólk

Ég hef sagt það billjón sinnum, ég gæti lifað á súpum, og auðvitað skellti ég í eina súpu í síðustu viku. Mig langaði í súpu með kókosmjólk, hún gefur svo gott bragð og fyllingu en er léttari í maga en rjómi. Og svo er ég að æfa mig að ofelda ekki kjúkling svo ég geti farið að fíla hann almennilega.

Ég ætla að byrja á því að sýna ykkur mynd af uppáhalds kraftinum mínum, það er hægt að fá grænmetis,-kjúklinga- og nautakjötskraft. Þeir gefa virkilega gott bragð og eru lausir við öll aukaefni. Það er alveg lygilegt að lesa innihaldið í venjulegum súputeningum sem eru þar að auki stútfullir af geri. Oft ég á bara pening til að kaupa mér eina tegund af krafti og þá geri ég það, oftast vel ég þá nautakraftinn því að venjulegu teningar eru að mínu mati vondir. Tékkið á þessu. Þetta fæst meðal annars í Heilsuhúsinu.

2016-01-08 18.31.44

Hér er svo uppskriftin að súpunni. Súpan er fyrir 3-4 fullorðna, dugir vel fyrir 2 fullorðna og 2 börn:

250 g kjúklingur, bringur eða filé

1 laukur

1 kínverskur hvítlaukur

2 cm bútur af fersku engifer

1 tsk karrýmauk

1 búnt vorlaukur

2 gulrætur

1 dós kókosmjólk

8 dl vatn

2 msk lífrænn kjúkingakraftur (eða 1 teningur)

2 tsk lífrænn grænmetiskraftur (1/2 teningur)

2 tsk tamarisósa

1 tsk karrý

væn skvetta af límónusafa

1 tsk sykur (eða annað sætuefni)

Saxið lauk og hvítlauk og steikið við vægan hita í ólívuolíu í potti.  Blandið karrýmaukinu saman við og njótið ilmsins. Karrýmauk gefur mjög gott bragð og fæst í nokkrum tegundum í Bónus. Ég nota það í marga rétti og mæli með því en ef þið eigið það ekki til getið þið sett örlítið meira karrý staðinn. Rífið gulrætur og engifer og bætið út í.

Saxið vorlauk en skiljið eftir sirka 5 cm búta af græna hlutanum. Bætið lauknum við, blandið kryddum saman við og látið malla um stund eða þar til grænmetið hefur mýkst.

2016-01-08 18.29.44

Hellið kókosmjólkinni út í og bætið vatninu við. Ég læt alltaf vatn renna í áldósina til að fá allan vökvann innan úr henni, það eru þá tvær fullar dósir  af vatni. Kreistið límónusafa út í, kannski úr 1/4 af límónu, hleypið suðunni upp og látið sjóða í 10 mín.

Á meðan súpan sýður er tíminn nýttur til að skera kjúklinginn í litla bita. Þegar súpan hefur mallað í 10 mín. er hún svo maukuð með töfrasprota. Það er ekki nauðsynlegt en mér finnast þykkar og matarmiklar súpur svo góðar. Bætið því næst kjúklingnum við og restinni af vorlauknum. Mér finnst gott að hafa hluta af honum ekki eins mikið soðinn og ekki maukaðan,  þess vegna set ég hann út í í restina, svo gefur það súpunni líka fallegan lit, en það er bara ég.

Leyfið kjúklingnum að sjóða í 10 mín., það á að vera alveg nóg en fer eftir stærð kjúklingabitanna. Smakkað súpuna til með tamarisósu eða salti.

Ég kreisti lime yfir súpuna mína, bætti við rifnum hvítlauksosti og pipraði vel. Himneskt.

2016-01-08 19.18.28

 

 

 

 

Hveitilausar ofurpönnukökur

Í dseember tók ég mér pásu frá því að takmarka hveiti, kartöflur, pasta og hrísgrjón í fæðunni. Reyndar er ég orðin svo vön því að sneiða hjá því að ég gerði það ósjálfrátt en ég naut þess sko að borða laufabrauð og brúnaðar kartöflur, rjúkandi pasta og ristað brauð og kakó á aðventunni.

Núna í byrjun janúar fann ég alveg hvað ég var tilbúin að halda mínum lífsstíl áfram, því að þetta er lífsstíll, ekki megrunaraðferð. Mér líður betur í kroppnum þannig en það er meiri fyrirhöfn, það er bara svoleiðis, en það er þess virði.

Ég skellti í pönnukökur handa stelpunum mínum um daginn og gerði sérdeig fyrir mig. Reyndar hefði ég ekkert þurft þess, sérstaklega litla dýrinu mínu fannst mínar ekkert síðri, man það næst. Ég ákvað að prófa eitthvað nýtt og vildi hafa pönnukökurnar mjög næringarríkar og seðjandi og það tókst! Ég verð svoleiðis pakksödd af einni til tveimur pönnsum og er södd lengi. Ég steikti mér þrjár pönnukökur þetta kvöld, borðaði tvær í kvöldmat og svo eina kalda morguninn eftir. Dásamlega gott. Ég setti restina af deiginu í box inn í ísskáp og steikti mér aftur pönnuköku í morgun. Tær snilld. Næst mun ég líklega helminga uppskriftina ef ég er bara að gera fyrir mig, þetta er stór uppskrift, en deigið geymist samt alveg sirka 4-5 daga í ísskáp.

Er þetta ekki fallegt? Ég elska fallegan mat.

2016-01-06 18.38.00

Uppskriftin er eftirfarandi:

chiagrautur úr 2 msk af chiafræjum og vatni

2 vel þroskaðir bananar

2 lárperur

2 egg

2 dl kókoshveiti

2 msk kókosolía

2 tsk kakóduft

2 tsk vínsteinslyftiduft

1 dl mjólk

Það er auðvitað stílbrot að hafa 1 dl af mjólk en tvennt af öllu öðru. Ég óskaði þess að geta notað 2 dl en þá hefði deigið orðið að drullumalli.

Byrjið á því að setja chiafræin í skál með vatni. Látið vatnið rétt fljóta yfir, kannski 1/2-1 dl af vatni, blandið og látið standa á meðan þið setjið hin hráefnin í skál, þetta verður að einskonar hlaupi á meðan. Ég stappaði svo allt saman í skálinni og blandaði vel.

Deigið er mjög ólíkt venjulegu hveitideigi, það á að vera þykkt eins og kaldur hafragrautur og næstum hægt að hnoða það. Setjið olíu á pönnu og passið að hafa ekki of háan hita. Ég setti eina kúfaða matskeiða af deiginu á pönnuna og flatti það út með spaða. Það er mjög auðvelt að eiga við deigið en það tollir auðvitað ekki eins vel saman og venjuleg soppa. Það gekk þó mjög vel að steikja og pönnukakan datt ekkert í sundur, ég notaði stóran spaða sem pönnukakan rúmaðist alveg á þegar ég smeygði honum undir hana til að snúa pönnsunni á pönnunni. Steikið í sirka 45 sekúndur til 1 mínútu á hvorri hlið. Það þarf ekkert að baka þetta í tætlur, meira að hita í gegn og fá gullbrúnan lit á pönnsuna.

Pönnukakan til vinstri var alveg eins og ég vildi hafa hana, sú til hægri pínu brennd en ég át hana samt upp til agna.

2016-01-06 19.25.33

Ég prófaði bæði hnetusmjör og sultu ofan á og ost. Það er mjög erfitt að ætla að smyrja pönnsuna með smjöri en svo er pottþétt líka gott að hafa sýróp. Hnetusmjörið og sultan fær mitt atkvæði, þetta er bara það besta sem ég hef borðið lengi. Ein svona í morgunamat og þið eruð góð til hádegis, alla vega ég. Tekur enga stund að steikja eina pönnsu og líkaminn malar af vellíðan á eftir.

Endilega segið mér ef þið prófið að hræra í svona og segið mér hvað þið fáið ykkur ofan á.

2016-01-06 19.20.45

Sælgætismolar – rocky road

Sælgæti búið til úr sælgæti er málið. Hef áður lýst yfir litlum áhuga mínum á smákökum en mér finnst gaman að búa til eitthvað svipað þessu. Ég sá uppskrift á Ljúfmeti og lekkerheit (sem ég hef bara minnst sirka 100 sinnum á í eigin bloggfærslum og nei, ég þekki þessa konu ekki neitt) að molum sem heita Rocky Road fyrir einhverjum árum og prófaði og finnst þeir æði. Þeir eru einfaldir í framkvæmd og ótrúlega góðir og hægt að leika sér með innihaldið. Í upprunalegu uppskriftinni eru pistasíukjarnar og 2015-12-15 19.27.44salthnetur en mér finnst pistasíur ekki góðar svo ég nota aðra tegund af hnetum eða meira af salthnetum. Ég nota svo alltaf suðusúkkulaði frá Heima. Það er ódýrast og kemur alltaf vel út, en auðvitað má kaupa eitthvað meira gæðasúkkulaði. Uppskriftin hér að neðan er í grunninn uppskriftin inni á Ljúfmeti en með mínu tvisti, tvistið er svo ólíkt í hvert skipti sem ég geri góðgætið.

600 g dökkt súkkulaði að eigin vali

1 poki Dumle karamellur

2 lúkur af litlum sykurpúðum (eða stórum klipptum niður) eða kassi af Lindubuffum

150-200 g salthnetur eða blanda af þeim og öðrum hnetum eða þeim og pistasíukjörnum

2015-12-15 18.05.40Ég hef hvergi fengið sykurpúða undanfarið svo ég sleppti þeim. Eða ég leitaði í Bónus og Rangá og nennti ekki á fleiri staði. Ég keypti bara kassa af Lindubuffum. Ég átti líka aðeins salthnetur svo ég notaði engar aðrar hnetur en það er ekkert síðra. Ég tímdi líka bara að kaupa 1 poka af Dumle karamellum þótt það séu 2 pokar í uppskriftinni inni á Ljúfmeti, með Lindubuffum er einn poki alveg nóg.

Bræðið súkkulaðið yfir vatnsbaði og látið kólna smá. Skerið á meðan karamellurnar í tvennt og Lindubuffin í bita og setjið í skál. Hellið salthnetunum út í skálina og súkkulaðinu þar yfir og blandið vel saman.

Setjið smjörpappír í stórt mót og hellið blöndunni í það. Kælið góða stund og skellið svo á bretti þegar blandan er storknuð og skerið í bita. Hrikalega gott.

 

 

 

Marengstoppar

Ég held að flestir hafi prófað að gera marengstoppa eða kurltoppa. Það varð eitthvað kurltoppaæði á tíunda áratugnum og lakkrískurl seldist upp fyrir öll jól. Ég skil það vel. Ég er alls engin smákökuæta og píni bara ofan í mig örfáar fyrir ömmu eldgömlu sem bakar margar sortir fyrir hver jól. Brosi og lýsi yfir velþóknun minni en finnst þetta ekkert gott. Bara eins og eitthvað ótrúlega plein kex. Og ömmusmákökur eru samt auðvitað bestar. En ég vil eitthvað meira djúsí. Sælgæti búið til úr sælgæti (athugið aðra færslu um rocky road sælgætismola) eða marengstoppa. Þar eru möguleikarnir endalausir, þvílík gleði.

Þegar ég var 12 ára (á tíunda áratugnum) gerðum við bekkurinn uppskriftabók og þar kom ein með uppskrift að kurltoppum. Uppskriftina fékk hún í Morgunblaðinu en þar var kona sem vann einhverja uppskriftakeppni með þessum unaði, þ.e. kurltoppum. Síðan hefur fjölskyldan mín gert kurltoppa um hver jól, fyrst við mamma og co. og núna ég og co., eftir að ég flutti að heiman og lét mömmu um að gera síns eigins kurltoppa.

Unga yngri finnst hins vegar lakkrístopparnir ekkert mjög góðir, ég er ekki viss um að hún sé dóttir mín. Og reyndar fannst unga eldri þeir aldrei neitt spes. Örugglega heldur ekki dóttir mín. En fyrir tveimur árum fór ég að leika mér að því að breyta innihaldinu. Og það var stórt skref. Því að það eru bara svona tvö ár síðan ég fór eitthvað að leeeeika mér í bakstri, það voru einu skiptin þar sem ég leit ekki af uppskriftinni, ég sem nota nær aldrei uppskrift þegar ég elda. En svona tekur maður áhættur og lifir á brúninni. Og ég gerði nokkrar tegundir af marengstoppum þá aðventu.

Ég verða að mæla með að hafa suðusúkkulaði og sykurpúða. Og nota hvítan sykur í stað púðursykurs. Það er klikkað gott. Og svo hef ég gert með karamellukurli. Mjög gott. Og núna gerðum við dæturnar, já, ég hef ekki afneitað þeim enn vegna kurltoppanna, marengstoppa með rjómasúkkulaði með karamellukurli og sjávarsalti OG karamellukurli (í poka). Og notuðum hvítan sykur. Það sá í hvítuna í augunum á börnum þegar þau borðuðu toppana, svo mikil var sykur- og nautnavíman.

3 eggjahvítur

200 g púðursykur/hvítur sykur

Þetta eru marengstopparnir sjálfir. Þegar búið er að stífþeyta er bara að missa sig í gleðinni og fjölbreytninni:

130 g súkkulaði, t.d. suðusúkkulaði eða rjómasúkkulaði með karamellu og sjávarsalti eða eitthvað annað fáránlega sniðugt

1-2 pokar lakkrískurl eða karamellukurl

t.d. lúka af  litlum sykurpúðum

Blandið sælgætinu varlega saman við með sleikju. Látið á plötu með teskeið. Bakið í miðjum ofni við 150° í 20 mín. EÐA eins og ég geri og mér finnst þeir verða akkúrat mátulegir þannig, við 130° með blæstri í 15 mín.

Namm. Namm, namm.

 

Svírðilega einföld og góð kjúklingalæri

Ég er ekkert rosalega hrifin af kjúklingi, nema þeim sem pabbi eldar. Ég þreytist ekki á því að mæra hann á þessu bloggi, hann er einstaklega góður kokkur. Þegar við tölum saman er hann alltaf með eitthvað í pottinum eða í ofninum, þótt hann búi einn eldar hann oft og leikur sér að því að búa til nýja rétti. Svo tölum við um þessa rétti og um daginn sagði ég honum hvað hann væri mér mikill innblástur í eldamennskunni og bað hann að skrifa eitthvað af þessum réttum sínum niður. Það verður fjársjóður sem ég mun varðveita vel.

Ég hefði aldrei trúað því hversu gott er að hafa tómata og mango chutney saman en það kenndi pabbi mér í eitthvert af skiptunum sem hann var í heimsókn hérna. Hann kemur nokkra daga í einu og er í eldhúsinu allan tímann. Ég elska það. Þetta er eins og að fylgjast með atvinnumanni.

Alla vega hef ég þróað minn eiginn fáránlega auðvelda kjúklingarétt út frá hugmyndum pabba. Ég hef aldrei séð hann elda bara kjúklingabringur, eins og við gerum svo mikið á Íslandi. Bæði finnst honum það of dýr matur og ekki nógu góður, hann vill fá safann úr kjúklingnum. Hann kaupir alltaf heila kjúklinga og hlutar þá niður sjálfur og einn daginn mun ég gera það. Þangað til kaupi ég bara læri, þau klikka aldrei, eru ódýr og alltaf safarík.

Við vorum 4 að borða og það eru 3 kjúklingalæri í afgang. Ég mundi miða við 2-3 læri á fullorðinn og 1-2 á barn, fer eftir aldri þeirra. En svo er alltaf í lagi að eiga smá afganga og skella í tortillu daginn eftir.

1 kg kjúklingalæri

2 dósir af niðursoðnum tómötum

1/2 krukka mango chutney (srika 170-200 g)

1 laukur

1 kínverskur hvítlaukur eða 3-4 geirar

2-3 tsk salt

2 tsk cumin

2 tsk kjúklingakrydd

 

Skerið lauk og hvítlauk í sneiðar og hendið í ofnfast mót. Ég er svo heppin að eiga dásamlegan leirpott eða leirfat með loki sem pabbi gaf mér og Hrund í brúðkaupsgjöf, það verður allt betra í því, en það er í góðu að nota eldfast mót. Hellið tómötum og mango chutney út í, þar á eftir kryddum og blandið vel saman með skeið. Smakkið sósuna til, það er snilld að gera það áður en maður setur kjúklingalærin á bólakaf ofan í sósuna.

Mér finnst gott að láta kjúklingalæri malla, þau verða aldrei þurr og áðan voru þau svo meir að kjötið datt af beininu. Ég gleymdi að taka þau úr frysti í gær, sem ég passa mig annars að gera, svo að þau fór frosin inn í ofn. Ég eldaði þau svo í tveimur hollum þar sem við vorum á flandri, í rúman klukkutíma í einu. Ég mæli því að leyfa þeim að malla í góða 2 klukktíma á 130° með blæstri. Ef þið hafið ekki tíma það er í góðu að elda þau við 170-180° á blæstri í klukkustund. Stelpurnar höfðu hrísgrjón og guacamole með en ég bara guacamole. Þið finnið uppskrift að því hér á síðunni.

Lyktin var svo góð og allir svo svangir að við bara réðumst á matinn og ég gleymdi að taka mynd, tók eina aumingjalega í miðri máltíð sem ég læt samt fylgja með. Sósan ofan á er var vel elduð, hún er samt góð þannig og er ekki svona brennd eins og hún lítur út fyrir að vera og mér finnst það bara betra. En ef þið viljið losna við það er gott að hafa álpappír yfir mótinu. Endilega prófið réttinn og segið mér hvað ykkur finnst.

2015-12-06 19.55.22

Enter a caption

Bananar í ofni

Ég hef áður lofað banana á þessu bloggi, í annarri bananauppskrift. Þegar ég var í Svíþjóð hjá pabba sem krakki gerði hann oft banana í ofni handa mér í eftirrétt. Hann gaf mér aldrei nammi en ég mátti fá svona banana á hverju kvöldi og sæt lykt af bönunum og kanil minnir mig alltaf á þessa tíma. Við eyddum ómældum tíma í að elda saman og borða saman og það er eitthvað sem ég mun alltaf búa að.

Ég er alltaf á leiðinni að setja inn uppskrift að hjúpuðum bönunum, uppáhaldinu hennar Röskvu minnar, en ég gleymi að kaupa kókosmjólk í hvert skipti sem ég fer í búð. Það kom þó ekki að sök í kvöld, þessi bananar eru betri ef eitthvað er. Ég átti þrjá banana og eina peru sem lágu undir skemmdum svo ég notaði það. Þetta passaði með þeim litla ís sem var eftir í frystinum handa mér og stelpunum mínum tveimur, sem betur fer er konan mín engin eftirréttarkona því að hún hefði ekki fengið neinn í þetta skiptið. Ég átt líka matreiðslurjóma sem var að renna út og notað hann en pabbi notaði aldrei annan vökva en vatn, sem er ekkert síðra.

3 þroskaðir bananar2015-11-24 17.48.26

1 pera

1 1/2 msk púðursykur

1 1/2 msk hunang

1 tsk kanill

1 1/2 dl matreiðslurjómi eða vatn

Þetta er súpereinfalt eins og uppskriftin ber með sér og sá Röskva um að græja þetta. Skerið banana í tvennt og helmingana aftur í tvennt og raðið í mót. Skerið peruna í bita og raðið ofan á. Stráið púðursykri yfir og dreifið hunanginu þar yfir og stráið kanil ofan á allt. Hellið rjómanum/vatni yfir allt og bakið í ofni í 20-30 mín. á 170° með blæstri. Mæli með því að hafa ís með og raspa suðusúkkulaði yfir. Namm.

2015-11-24 18.32.24